Ólöf Bjarki Antons, formaður Trans Íslands, segist skilja vel að bandaríska transkonan Rynn Willgohs vilji sækja um hæli á Íslandi til þess að flýja ofsóknir í Bandaríkjunum.
Í viðtali við bandaríska miðilinn Grand Forks Herald sagði Willgohs að hún upplifði sig velkomna í íslensku samfélagi ólíkt í því bandaríska, þar sem hún upplifir sig utangarðs og finnst henni vera ógnað.
Ólöf Bjarki segir í samtali við mbl.is að ekki sé sérstaklega tekið tillit til þess að fólk sé kynsegin er það sækir um hæli hér á landi. Það sé þó auðveldara fyrir konur að fá hæli en karla.
„Þar sem að hún sem transkona er að flýja Bandaríkin þá er ekki tekið inn í kerfinu að hún sé trans, heldur bara að hún sé kona,“ segir hán og bætir við að ólíklegt sé að hún fái hæli hér á landi þar sem hún er bandarísk kona.
„Þau telja ekki þörf á að bandarískar konur þurfi hæli.“
Samkvæmt skýrslu Mannréttindavaktarinnar frá árinu 2021 er transfólk í verulegri hættu á að verða fyrir ofbeldi í Bandaríkjunum.
Ólöf nefnir að Trans Ísland leggi áherslu á tekið sé tillit til kynvitundar fólks og hvort það sé trans er það sækir hér um hæli.
„Í mörgum löndum er virkilega slæm staða fyrir hinsegin fólk, en ríkið telur það vera óhætt fyrir fólk almennt.“
Hán nefnir að frumvörp séu lögð fram trekk í trekk um að meina transfólki, sérstaklega börnum, aðstoð.
„Það var frumvarp fyrir svona hálfu ári í Texas þar sem þeir vildu að foreldrar transbarna yrðu kærð til barnaverndarnefndar,“ segir Ólöf og bætir við að Repúblikanar séu að sækja á í að setja fram frumvörp.
Hán segir þó að frumvörpin séu ekki endilega samþykkt eins og er.
„Núna þegar Demókratar eru í meirihluta í bandaríska þinginu þá finnst mér ólíklegt að það verði gert. En það verður þá bara innan einstakra fylkja.“
Ólöf segir fordóma í Bandaríkjunum gagnvart transfólki því ekki vera að minnka.
„Það er dálítil uppsveifla í fordómum og bakslag þarna í Bandaríkjunum er kemur að transfólki, eins með konur og alla minnihlutahópa.“
„Ég skil að fólk upplifi sig ekki öruggt í heimaríki sínu – í Bandaríkjunum,“ segir Ólöf að lokum.