Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í samtali við mbl.is að samningur Starfsgreinasambandins (SGS) og Samtaka atvinnulífsins (SA) séu vonbrigði.
„Það hefði verið óskastaða fyrir okkur að geta haldið hópinn, þó að ólík sjónarmið og kröfur séu í gangi. Þar sem að það er bara svo margt undir annað, til dæmis aðgerðarpakki stjórnvalda og fleira,“ segir hann en VR var í samfloti með SGS áður en félagið sleit viðræðum fyrir rúmlega viku síðan.
Ragnar vildi ekki tjá sig efnislega um samning SGS og SA en sagði hann veikja stöðu VR gagnvart stjórnvöldum, „þegar að heltist svona úr hjörðinni“.
„Sömuleiðis hefði maður líka viljað önnur atriði sem að við höfðum getað mögulega náð fram sameiginlega. Þó svo að kröfur varðandi launaliðinn séu ólíkar. Þannig að þetta voru vonbrigði.“
Spurður hvort samningsstaða VR versni með undirritun samningsins segir Ragnar að hann einfaldi ekki stöðuna.
„Sérstaklega þegar kemur að sameiginlegum málum sem skipta allan hópinn og allt launafólk máli. Hvort sem það eru aðgerðir stjórnvalda eða einhver trygging fyrir því að það sem um er samið fari ekki beint út í verðlag hjá fyrirtækjum. Það skiptir í sjálfu sér ekki máli hvað þú semur um, hvort að það sé 50 eða 100 þúsund, ef þú hefur enga tryggingu fyrir því að fyrirtækin taki þátt í að halda verðstöðugleika eða lækka verð. Vinna að þessum sameiginlegu markmiðum okkar að ná niður verðbólgu og vöxtum.“
Hann segir að eftir því sem heltist meira úr lestinni þá minnki þrýstingurinn sem samninganefndirnar hafi.
„Út frá þeirri stöðu er hún sennilega flóknari og verður meiri áskorun að ná ásættanlegri niðurstöðu.“
Í gær var greint frá því að VR, Landssamband íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) og samflot iðn- og tæknigreina hafa ákveðið að taka höndum saman í viðræðum við SA.
„Við höfum verið í góðu sambandi við samflot iðnaðarmanna þannig að þetta var í sjálfu sér það eina í stöðunni, að þétta raðirnar með formlegum hætti og mynda stóran hóp, til þess að gera það besta úr stöðunni,“ segir Ragnar.
Samningur SGS getur á um krónutöluhækkanir en Ragnar segir að VR leggi áherslu á prósentuhækkanir.
„Við viljum ekki fara í hreinar krónutölur og höfum lagt meiri áherslu á millitekjuhópana. Það hefur alltaf legið fyrir. En það hefur að sjálfu sér ekki falist einhver ómöguleiki í því að ganga frá á breiðari grunni, þó að skiptingin kannski á milli starfsgreina og félaga sé með ólíkum hætti.“
Ragnar segir að viðræður hafi snúist um skammtímasamninga, en það sé ekki að frumkvæði VR. Samningur SGS gildir til 31. janúar árið 2024.
„Það hefur verið uppleggið og við höfum í sjálfu sér verið í viðræðum út frá þeim forsendum.“
Hann segir að ríkissáttasemjari hafi ekki boðað samninganefndirnar formlega á fund en það standi til að funda á morgun.