Þórdís Kolbrún heimsótti SOS barnaheimili í Malaví

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í heimsókn í SOS barnaheimilið …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í heimsókn í SOS barnaheimilið í Lilongve. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra er nú í vinnuheimsókn í Malaví en í dag heimsótti hún SOS barnaheimilið í Lilongve, höfuðborg ríkisins. 

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að helmingur barna á barnaheimilinu eigi íslenska SOS-foreldra. 

SOS Barnaþorpin eru fjögur í Malaví og samtökin sjá 433 umkomulausum og yfirgefnum börnum fyrir heimilum í landinu, þar af eiga 166 þeirra styrktarforeldra á Íslandi. Hlutfallið er enn hærra í barnaþorpinu í Lilongve, eða 43 börn af 88.

Hope Msosa, aðstoðarframkvæmdastjóri SOS í Malaví tók á móti ráðherra og sagði frá helstu verkefnum samtakanna í landinu.

SOS Barnaþorpin eru fjögur í Malaví og samtökin sjá 433 …
SOS Barnaþorpin eru fjögur í Malaví og samtökin sjá 433 umkomulausum og yfirgefnum börnum fyrir heimilum í landinu, þar af eiga 166 þeirra styrktarforeldra á Íslandi. Ljósmynd/Stjórnarráðið

„Frjáls félagasamtök eru mikilvægir samstarfsaðilar í þróunarsamvinnu og ráðuneytið gerði fyrr á árinu rammasamninga við nokkur þeirra, þar á meðal SOS Barnaþorpin, sem við höfum átt langt og farsælt samstarf við. Það er mjög ánægjulegt að kynnast starfi samtakanna í Malaví og sjá með eigin augum að velferð barnanna er sett í öndvegi. Mér finnst einnig mikið koma til þeirrar nýju áherslu samtakanna að styðja við nærsamfélagið með verkefnum á sviði fjölskyldueflingar,“ er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu.

Hún kemur einnig til með að eiga fund með fulltrúum Rauða krossins í Malaví í vikunni en Rauði krossinn á Íslandi hefur um tveggja áratuga skeið átt í samstarfi við systurfélagið í Malaví.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert