Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segist bæði sorgmæddur og dapur að sjá „fólk sem ég taldi vera góða vini mína stinga mig í bakið“ vegna nýs kjarasamnings SGS og Samtaka atvinnulífsins.
Vilhjálmur segir þennan sama hóp fólks líkja samningi þessum við glæp hans hálfu. Þetta kemur fram í færslu sem Vilhjálmur birti á Facebook síðdegis. Þar kemur einnig fram að hann telji samning SGS og SA þann besta sem hann hafi komið að.
Bæði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hafa gagnrýnt samning SGS opinberlega í dag og má ætla að Vilhjálmur sé að beina orðum sínum til þeirra.
Vilhjálmur, Ragnar og Sólveig gengu sameiginlega út af nýliðnu þingi Alþýðusambandsins.
„Formaður Eflingar sem hefur m.a. gagnrýnt þennan kjarasamning harðlega hefur sagt að lífskjarasamningurinn frá 2019 hafi verið mjög góður og þar erum við sammála. Í ljósi þeirra ummæla formanns Eflingar skil ég ekki þessa gagnrýni á nýjan samning SGS sem inniheldur á þessum stutta samningstíma mun meiri launahækkanir en fengust í lífskjarasamningnum,“ segir í færslu Vilhjálms.
Vilhjálmur bendir á að Efling sem ákvað „að skila ekki samningsumboðinu til Starfsgreinasambandsins“. Hann segir það hefði verið heillaksref ef Efling hefði farið með SGS að samningaborðinu.
„Ég veit hins vegar að upplýsingum var lekið til fjölmiðla meðan viðræður okkar voru á viðkvæmu stigi og markmiðið getur ekki hafa verið annað en að skemma þá vinnu sem við vorum að vinna að og afvegaleiða það sem verið var að semja um,“ segir Vilhjálmur enn fremur.
Vilhjálmur sver af sér að hafa gert samning sem er félagsfólki sínu ekki hagfelldur:
„Allir sem mig þekkja vita að ég sem formaður Starfsgreinasambands Íslands hefði aldrei skrifað undir kjarasamning sem ég teldi ekki góðan fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði.“