Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir bandalög fólks ekki vara að eilífu þó það hafi einhvern tíma náð saman um ákveðin mál. Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS), beri ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin innan verkalýðshreyfingarinnar nú og orðræða hans um bakstungur sé ekki viðeigandi.
Það sé vegna stuðnings hennar og félaga í Eflingu að hann sitji sem formaður SGS.
Hún segist sjálf ekki bera ábyrgð á því að leka upplýsingum um kjaraviðræður SGS og Samtaka atvinnulífsins (SA) til fjölmiðla, en viðurkennir að hafa upplýst samninganefnd Eflingar um gang mála, enda sé það skylda hennar sem formaður.
Sólveig hefur gagnrýnt harðlega nýundirritaðan kjarasamning SGS og SA.
Um sé að ræða samning sem sé langt frá því sem Efling gæti sætt sig við. Þá hefur hún gagnrýnt hraðann á viðræðunum, sem hún segir engan græða á. Vilhjálmur hefur sagst sorgmæddur yfir viðbrögðunum og finnst hann hafa verið stunginn í bakið.
Spurð hvort það ósætti sem upp er komið á milli hennar og Vilhjálms komi til með að hafa áhrif á samstarf þeirra innan SGS, þar sem Efling er eitt aðildarfélaga, segir Sólveig:
„Svo ég svari bara heiðarlega, þá er það augljóslega svo, að allt fólk sem komið er til vits og ára og fylgist með gangi veraldarinnar veit að pólitík virkar þannig að fólk gerir með sér bandalög um mál sem hægt er að standa saman um. Það þýðir auðvitað ekki að þessi bandalög séu að eilífu eða að annar aðilinn í bandalögunum eigi að sætta sig við eitthvað sem hann getur ekki sætt sig við.“
Vilhjálmur hafi gert mistök með því loka samningi við SA með þeim hætti sem hann gerði.
„Vilhjálmur Birgisson tók ákvörðun um að ljúka samningi við Samtök atvinnulífsins með miklum hraða, án þess að mínu mati og að mati samninganefndar Eflingar, að nýta samtakamátt hreyfingar vinnandi fólks til að fá betri samning. Án þess að draga andann djúpt, að fara yfir stöðuna með þeim sem hann átti auðvitað að gera það með. Það er ástæðan fyrir því að við erum á þeim stað sem við erum núna,“ segir Sólveig.
„Ég og samninganefnd Eflingar berum ekki ábyrgð á því. Ábyrgðin er öll hans,“ bætir hún við.
„Hann er formaður Starfsgreinasambandsins vegna þess að ég og félagar mínir í Eflingu mættum á síðasta þing sambandsins og veittum honum okkar stuðning. Án stuðnings okkar væri hann ekki í þessu sæti sem hann er í núna. En mér dettur aftur á móti ekki í hug að leggjast svo lágt að segja að hann hafi stungið mig eða félaga mína í Eflingu, sem studdu hann, í bakið þegar hann tók ákvörðun um að gera Samtökum atvinnulífsins tilboð um kjarasamning án þess að leita til okkar eftir samþykki eða samvinnu á því.
Án þess að fá afstöðu okkar til þess hvort væri um rétta ákvörðun að ræða. Mér finnst það ekki viðeigandi orðræða.“
Vilhjálmur hefur sjálfur sagt að hann hafi haldið Sólveigu upplýstri um gang mála í samningaviðræðum við SA, en hvað fólst þá í þeirri upplýsingagjöf?
„Við áttum auðvitað samtöl um það sem var að eiga sér stað, en það er eitt að eiga sér samtal um það og annað að fara svo og gera Samtökum atvinnulífsins tilboð sem hann gerði. Tilboð sem þau svo augljóslega töldu svo gott fyrir Samtök atvinnulífsins að þau gátu ekki neitað því og loka þannig kjarasamningi sem hann gerði.“
Sólveig segir Vilhjálmi því átt að hafa verið það ljóst að hún var ekki sátt við þær hugmyndir sem unnið var með í viðræðunum. Það hvarflaði í raun ekki að henni að hann myndi gera SA það tilboð sem hann gerði.
„Hvað sem átti sér stað í samtölum okkar, þá á engum tímapunkti lét ég mér einu sinni detta það í hug að hann myndi svo loka kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins með því að gera þeim tilboð sem þau töldu sig ekki geta neitað, án þess að fara yfir það, ekki bara með okkur heldur líka þeim sem hann var í eiginlegu samfloti með. Til dæmis eins og VR.“
Hún gagnrýnir meðal annars mikinn hraða á viðræðunum. Með því hafi tækifæri til að fá stjórnvöld til að koma að borðinu með raunverulegum hætti verið glutrað niður. SA líti nú svo á að með þessum kjarasamningi sé komið módel sem þröngva eigi upp á aðra.
Sólveig bendir þó á að enn eigi eftir að semja fyrir tvo þriðju hluta allra félaga innan ASÍ.
„Þannig að það er ekki bara Efling sem er á þessum undarlega stað, heldur risastór hópur annarra. Það hvernig við náum að vinna úr þessari stöðu sem upp er komin fer auðvitað eftir því hvaða styrk okkar félagsfólk er tilbúið að sýna. Hversu mikla samstöðu fólk er tilbúið að sýna í baráttunni fyrir því að þeirra kjör endurspegli þeirra grundvallarmikilvægi í hagkerfinu. Ég trúi að félagsfólk Eflingar sem veit að það er ómissandi hér á höfuðborgarsvæðinu og án þeirra vinnu stoppar allt. Ég trúi því að þetta fólk sé tilbúið að sýna samstöðu til að tryggja að við undirritum á endanum kjarasamning sem endurspeglar þetta mikilvægi.“
Hvað varðar þann upplýsingaleka sem Vilhjálmur segir hafa átt sér stað til fjölmiðla á meðan viðræður SGS og SA voru á viðkvæmum stað, segist Sólveig ekki bera ábyrgð á honum.
Vilhjálmur hefur sakað Eflingu um að bera ábyrgð á upplýsingalekanum og í Kastljósi í gærkvöldi bendlaði hann Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra og núverandi fræðslu- og félagsmálstjóra, við lekann. Sólveig vill ekki svara fyrir það, en telur þó líklegt að Vilhjálmur hafi sagt fleirum en fulltrúum Eflingar frá því um hvað viðræðurnar snerust.
Í Kastljósinu sagðist Vilhjálmur hafa rætt við Viðar og veitt honum upplýsingar um gang kjaraviðræðna, og daginn eftir hefðu þær upplýsingar birst í fjölmiðlum.
„Ég lak þessu ekki, en það er á mína ábyrgð að koma upplýsingum áfram, til dæmis til fjölmennrar samninganefndar Eflingar. Ef ég geri það ekki þá er ég að bregðast skyldum mínum gagnvart þeim og það er ég ekki að gera,“ segir Sólveig.
Þannig að upplýsingarnar komu frá Eflingu?
„Ég ætla bara að segja að upplýsingar berast að sjálfsögðu til fjölmiðla. Vegna hvers? Nú af því að þarna er verið að fjalla um hápólitísk mál sem snerta risastóran hóp fólks,“ segir Sólveig og heldur áfram:
„Þegar þessar upplýsingar fara í fjölmiðla er Vilhjálmur Birgisson búinn að gera Samtökum atvinnulífsins þetta tilboð. Ég á mjög erfitt með að skilja þessa leyndarhyggju og þetta pukur, að það megi ekki fréttast, að það sé ekki bara gott og eðlilegt að þau sem eiga svo að starfa eftir því sem verið er að semja um, fái að fylgjast með og vita hvað er að gerast. Við í Eflingu leggjum áherslu á að miðla upplýsingum hratt og örugglega til félagsfólks vegna þess að við störfum vissulega í umboði þeirra. Það er okkar skylda að gera ekkert nema félagsfólk hafi sem besta vitneskju um það sem verið er að gera og styðji það.“