Íslensk stjórnvöld aðeins innleitt 6 af 18 tillögum GRECO

Meðal atriða sem unnið hefur verið að er að birta …
Meðal atriða sem unnið hefur verið að er að birta lista yfir hagsmunaaðila hér á landi. GRECO telur þá vinnu þó ekki að fullu kláraða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslensk stjórnvöld hafa aðeins á fullnægjandi hátt innleitt 6 af 18 tillögum sem Samtök ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu (GRECO) settu fram í skýrslu sinni árið 2018 eftir úttekt sem náði til æðstu handhafa framkvæmdavaldsins annars vegar og hins vegar til löggæsluyfirvalda.

Árið 2020 var birt eftirfylgniskýrsla og kom þá fram að íslensk stjórnvöld hefðu á fullnægjandi hátt innleitt fjórar tillögur og sjö til viðbótar að hluta. Þá væru sjö tillögur sem ekki hefði verið mætt.

Önnur eftirfylgniskýrsla var birt í dag og kemur þar fram að búið sé að innleiða á fullnægjandi hátt sex tillögur og að tíu tillögur hafi að hluta verið innleiddar. Tvær tillögur hafa ekki að neinu marki verið innleiddar. Því hefur fjölgað um tvær sem hafa verið innleiddar að fullu og um tvær sem innleiddar hafa verið að hluta.

Í þessari annarri eftirfylgniskýrslu segir að niðurstaða GRECO sé að Ísland hafi ekki komið til móts við athugasemdirnar í úttekinni á fullnægjandi hátt. Er því óskað eftir því að íslensk stjórnvöld standi skil á skýrslu um framgang innleiðingarinnar, ekki síðar en í árslok 2023.

Annað atriðið sem GRECO segir að hafi ekki verið uppfyllt tekur til þess að setja þurfi siðareglur fyrir lögreglu og Landhelgisgæsluna þar sem meðal annars er tekið á hagmunaárekstrum og stjórnmálaþátttöku, auk þess sem leiðbeiningar verði gefnar út með dæmum um spillingu. Hitt atriðið tengist skýrum, skilmerkilegum og gagnsæjum reglum varðandi ráðningarsamninga löggæslumanna og á hvaða forsendum ákvarðanir m.a. um að framlengja ekki samninga eru byggðir.

Atriði sem GRECO telur vera í vinnslu eða uppfyllt að hluta taka meðal annars til siðareglna fyrir æðstu stjórnendur landsins, reglna um hagsmunaaðila og annarra sem reyna að hafa áhrif á valdhafa og löggjafann og að styrkja þurfi skráningu og utanumhald yfir hagsmunaskráningu æðstu stjórnenda landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert