Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir það ekki útilokað að nefndin fái til sín fleiri gesti í tengslum við umfjöllun nefndarinnar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
„Það er alveg opið á þessari stundu, það er ekkert ákveðið en það er allt opið,“ segir Þórunn í samtali við mbl.is.
Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi sat fyrir svörum nefndarinnar í gær, ásamt Jarþrúði Hönnu Jóhannsdóttur sviðsstjóra. Áður höfðu fulltrúar Bankasýslunnar komið á fund nefndarinnar sem og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og fleiri.
Þórunn vill ekki tjá sig um heimsókn ríkisendurskoðanda í gær til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, enda tjái hún sig ekki um einstaka heimsóknir til nefndarinnar á meðan skýrslan er þar á borði og til umræðu.
„Við gerum það yfirleitt ekki í neinni nefnd hér á þingi. Málin eru bara þar inni og við ræðum þau þar,“ segir Þórunn.
„Staðan er einfaldlega þannig að skýrsla Ríkisendurskoðunar er á borði nefndarinnar og enn þá þar til umræðu. Þær ákvarðanir sem eru teknar um umfjallanir og annað eru teknar í nefndinni og á endanum verður skrifað álit eða fleiri álit og þau skila í raun sjónarmiðum nefndarinnar um skýrslu ríkisendurskoðanda.“