Guðjón valinn sjálfboðaliði ársins

Hér tekur Guðjón Bjarni Eggertsson við viðurkenningunni Sjálfboðaliði ársins 2022 …
Hér tekur Guðjón Bjarni Eggertsson við viðurkenningunni Sjálfboðaliði ársins 2022 frá Laufeyju Guðmundsdóttur formanni tilnefndinganefndar. Ljósmynd/Aðsend

Strætisvagnabílstjórinn Guðjón Bjarni Eggertsson var í gær valinn sjálfboðaliði ársins 2022 af Almannaheill.

Þetta er í fyrsta skipti sem samtökin útnefna sjálfboðaliða ársins en samtökin segja tiltækið lið í því að þakka þeim fjölmörgu sem gefa sinn tíma og orku í vinnu fyrir félagasamtök á hverju ári. Sjálfboðastarf er stundum sýnilegt en einnig eru fjölmargir sjálfboðaliðar sem vinna að góðum verkum „bak við tjöldin“ og eru því ekki í sviðsljósinu.

Margar góðar tilnefningar bárust en ákveðið var að velja Guðjón Bjarna sem fyrsta sjálfboðaliða ársins, en Guðjón hefur verið sjálfboðaliði hjá IOGT frá æsku og unnið ötullega við bindindismótin í Galtalækjarskógi í áratugi.

„Guðjón er bóngóður og friðsamur, lausnamiðaður og skemmtilegur,“ segir í umsögn dómnefndar. Í umsögninni kemur einnig fram að Guðjón Bjarni, sem starfar á vöktum sem strætisvagnabílstjóri, hefur iðulega þurft að aðlaga vaktir sínar til að geta sinnt verkefnum sínum sem sjálfboðaliði og ljóst að sjálfboðastarfið er líf hans og yndi.

„Ég er Guðjón bak við tjöldin,“ sagði Guðjón Bjarni glaður í bragði þegar Almannaheill óskaði honum til hamingju með útnefninguna auk þess að þakka öllum sjálfboðaliðum fyrir þeirra óeigingjarna framlag í þágu félagasamtaka og samfélagsins alls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka