Birgir Finnsson, aðstoðarslökkviliðsstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, segir ákveðnar vísbendingar hafa borist um að myndband með klámfengnu efni hafi verið tekið upp í húsnæði slökkviliðsins við Skógarhlíð í Reykjavík.
„Núna þegar þetta er komið í fjölmiðla höfum við verið að fá fleiri ábendingar sem við munum fylgja eftir,“ segir Birgir í samtali við mbl.is.
Áður hafði verið greint frá því að myndbandið virtist vera tekið upp í íslenskum sjúkrabíl, en ef rýnt í er skjáskot af myndskeiði úr klámmyndbandinu, og mynd sem mbl.is hefur undir höndum og er tekin í húsnæði slökkviliðsins, þá virðist vera um sama rými að ræða.
Spurður út í rýmið og hvort fólk hafi áttað sig á staðsetningunni segir Birgir:
„Þegar fleiri fara að horfa og skoða þá dettur mönnum í hug pláss og finna. Við munum bara fylgja því eftir,“ segir Birgir.
Spurður hvort það séu ekki bara starfsmenn slökkviliðsins sem hafi aðgang að húsnæðinu segir Birgir:
„Jú, húsnæðið er auðvitað bara húsnæði slökkviliðsins. Það er bara eitthvað í gangi sem við erum ekki sátt við og erum bara að fylgja eftir.“
Engar öryggismyndavélar eru innanhúss í Skógarhlíðinni og segir Birgir að ekki hafi verið talin þörf á því.
Hann segir málið litið alvarlegum augum og slökkviliðið hafi ekki áhuga á að því að dragast inn í mál af þessu tagi.