Samfylkingin leggur meðal annars til þær breytingartillögur við fjárlög ríkisstjórnarinnar að fallið verði frá gjaldahækkunum, vaxtabætur til millitekjufólks hækki um 50 prósent, að barnabætur til fjölskyldna hækki og að húsnæðisbætur til leigjenda verði hækkaðar tímabundið um tíu prósent.
Einnig eru lagðar til þær breytingar að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður um þrjú prósent og að lækkun á bankaskatti verður afturkölluð að hluta, að fram kemur í tilkynningu.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, kynnti breytingartillögurnar í dag, en um er að ræða kjarapakka með tillögum sem falla í tvo flokka sem bera yfirskriftina: „Verjum heimilisbókhaldið“ og „Vinnum gegn verðbólgu“.
Haft er eftir Kristrúnu að Samfylkingin vilji færa aðhaldið af almenningi og þangað sem þenslan er í raun.
„Allt aðhald ríkisstjórnarinnar er lagt á almenning. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hækkar skatta með hækkun krónutölugjalda sem falla þyngra á fólk eftir því sem það hefur lægri tekjur. Samfylkingin vill sýna að það er hægt að fara aðra leið í þessum efnum,“ segir Kristrún, en Samfylkingin mun fylgja kjarapakkanum eftir á Alþingi á næstu dögum með því að leggja fram breytingartillögur við fjárlög ríkisstjórnarinnar.
Verjum heimilisbókhaldið
13 milljarðar í kjarabætur
Falla frá gjaldahækkunum ríkisstjórnar
* Krónutölugjöld hækki um 2,5% í stað 7,7% á milli ára
Hækka húsnæðisbætur til leigjenda
* Hækkun um 10% og tímabundin leigubremsa að danskri og skoskri fyrirmynd
Hækka vaxtabætur til millitekjufólks
* Eignaskerðingamörk hækki um 50% eins og íbúðaverð frá 2020
Hækka barnabætur til fjölskyldna
* Þrír milljarðar til hækkunar á fjárhæð með barni og viðmiðunarmörkum
Tvöfalda framlög til uppbyggingar
* Stofnframlög til íbúðauppbyggingar verði ekki helminguð heldur tvöfölduð 2023
Vinnum gegn verðbólgu
17 milljarðar í mótvægisaðgerðir
Hækka fjármagnstekjuskatt
* Hækkun úr 22% í 25% sem fellur nær eingöngu á tekjuhæstu 10% landsmanna
Loka „ehf.-gatinu“ svokallaða
* Takmarka möguleika fólks til að telja launatekjur fram sem fjármagnstekjur
Leggja álag á veiðigjöld stórútgerða
* Hvalrekaskattur á metarðsemi stærri útgerða vegna verðhækkana sjávarafurða
Afturkalla bankaskattslækkun að hluta
* Fjögurra milljarða hækkun á bankaskatti sem var lækkaður um sex milljarða 2020