„Eins og kom fram þegar ríkisstjórnin kynnti sínar tillögur er stærsta útgjaldaaukningin til heilbrigðismála,“ segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, í samtali við Morgunblaðið um breytingatillögur meirihluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarp næsta árs er lagðar voru fram á Alþingi í gær.
Ásamt heilbrigðismálum séu félagsmálin stór póstur í breytingatillögunum „og svo erum við líka að bæta talsvert í ívilnanir til hreinorkubíla og stærri hreinorkubíla auk þess sem bæði lögreglan og Landhelgisgæslan eru að fá mjög mikla styrkingu og ákæruvaldið og Fangelsismálastofnun“, heldur formaðurinn áfram og nefnir enn fremur mannúðarmál vegna Úkraínustríðsins sem málaflokk er aukins stuðnings njóti. Aukning til heilbrigðismála nemur 12 milljörðum auk þess sem vaxtagjöld eru einnig fyrirferðarmikil en þar bætast 13 milljarðar króna við á milli umræðna. Hækkun framlaga til félags-, húsnæðis- og tryggingamála nemur 3,7 milljörðum og gert ráð fyrir að þar af fari 1,1 milljarður í að hækka frítekjumark atvinnutekna öryrkja.
Framlög til lögreglu aukast um 900 milljónir með hliðsjón af markmiðum um viðbragðstíma hennar, málsmeðferðarhraða og öryggisstig auk þess sem 500 milljóna hækkun er eyrnamerkt aðgerðum gegn skipulagðri brotastarfsemi.
Miðað við breytingatillögurnar mun halli ríkissjóðs árið 2023 aukast úr 89 milljörðum, sem fjárlagafrumvarp gerði ráð fyrir, í tæpa 119 milljarða. Hækkar tekjuáætlunin um 23,7 milljarða en útgjöld um 53 milljarða.
Aukinheldur er lagt til að 210 milljónum króna verði varið til að tryggja ferjurekstur um Breiðafjörð þar sem rekstraraðili ferjunnar Baldurs mun hætta siglingum. Hreyfir frumvarpið því að önnur ferja verði leigð eða keypt til að fylla skarð Baldurs og er þar litið til ferjunnar Rastar sem er í siglingum í Norður-Noregi.
Breytingatillögur:
Tólf milljarða króna aukning til heilbrigðismála
Við vaxtagjöld bætast 13 milljarðar króna
1,1 milljarður króna til hækkunar frítekjumarks atvinnutekna öryrkja
500 milljónir króna gegn skipulagðri brotastarfsemi
Vilji til að ýta nýrri Breiðafjarðarferju úr vör