Meint hnífstunga líklega sjálfsáverki

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjölbreyttum verkefnum í dag sem endranær.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjölbreyttum verkefnum í dag sem endranær. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Maðurinn er í svo annarlegu ástandi að við getum ekkert sagt um þetta enn þá, en þetta gæti verið sjálfsáverki,“ segir Rafn Hilmar Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is um meinta hnífstungu á svæði 101 í Reykjavík í dag.

Málið er í rannsókn á lögreglustöð 1, Hverfisgötu, og liggja frekari upplýsingar ekki fyrir eins og er, en viðkomandi kvaðst hafa verið stunginn og sýndi áverka á höndum og fótum.

Þá kennir ýmissa grasa í dagbók lögreglunnar eftir daginn í dag, það sem af er. Á eftirlitssvæði lögreglustöðvar 1 var tilkynnt um konu að betla. Þá var tilkynnt  um vegfaranda sem datt utan við verslun í póstnúmeri 108 en frá 101 barst tilkynning um mann eða konu í annarlegu ástandi sem var lítt við alþýðuskap, kastaði niður blómapottum og veittist að fólki. Að lokum þurfti lögregla að fara á slysadeild Landspítalans og fylgja þaðan út gesti sem vildi ekki yfirgefa deildina.

Búðaþjófnaður og barn með rafbyssu

Lögreglustöð 2 í Hafnarfirðinum fékk tilkynningu um umferðaróhapp þar í bænum í dag en engin meiðsl urðu þar á fólki sem betur fer. Einhver var gripinn við hnupl í verslun í Garðabænum en í Hafnarfirði var einnig ekið á hund sem hlaut banvæna áverka.

Lögreglustöð 3 í Kópavogi var tilkynnt um grunnskólanemanda með rafbyssu á lofti í hverfi 111 í Breiðholtinu auk þess sem úr póstnúmeri 109 bárust fregnir af tveimur aðilum með rænulausa konu á milli sín. Það mál er í rannsókn.

Lögreglustöð 4 á Vínlandsleið fékk þá að heyra af sofandi einstaklingi í bifreið í Árbæ auk þess sem tilkynnt var um börn úti á ís á Rauðavatni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert