Ekki liggur fyrir hvort ákæra verður gefin út á hendur tveimur mönnum sem sitja í gæsluvarðhaldi grunaðir um skipulagningu hryðjuverka hér á landi.
„Það liggur ekki fyrir ákvörðun enn þá. Rannsókn er lokið og málið er til meðferðar hjá saksóknara,“ segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við mbl.is.
Mennirnir voru í síðasta mánuði úrskurðaðir í áframhaldandi tveggja vikna gæsluvarðhald sem rennur út á föstudaginn. Þá hafa þeir setið í gæsluvarðhaldi í ellefu vikur, en að hámarki er hægt að fá gæsluvarðhaldsúrskurði í tólf vikur án þess að gefa út ákæru.
Möguleiki á gæsluvarðhaldi í viku í viðbót er því fyrir hendi en Ólafur Þór vill ekki staðfesta að farið verði fram á það.
Spurður hvort ákæra verði tilbúin fyrir tólf vikna frestinn segir hann að sjá verði hvernig málinu vindur fram.
„Það er verið að fara yfir öll gögnin og meta þetta.“