Aukið hernaðarlegt mikilvægi landsins

Æfing Atlantshafsbandalangsins í Keflavík árið 2019.
Æfing Atlantshafsbandalangsins í Keflavík árið 2019. mbl.is/Árni Sæberg

Utanríkismálanefnd Alþingis fundar nú um skýrslu forsætisráðherra um mat þjóðaröryggisráðs á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum. Skýrslan var gerð af stýrihópi þjóðaröryggisráðs eftir innrás Rússa í Úkraínu. 

„Í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu hefur skapast eitt alvarlegasta hættuástand í öryggismálum Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Hér er um að ræða skýrt brot á alþjóðalögum sem hefur gerbreytt stöðu öryggismála og alþjóðasamstarfs. Stigmögnun stríðsins í Úkraínu er meðal áhættuþátta sem líta ber til út frá þjóðaröryggissjónarmiðum sem og hættan á að átökin breiðist út fyrir landamæri Úkraínu,“ segir í skýrslunni en hún er ítarleg og fer yfir fjölmörg atriði tengd þjóðaröryggismálum.

Nauðsynlegar birgðir og viðbragðsþjónusta

Er kemur að löggæslu, neyðar- og viðbragðsþjónustu segir að áherslur almannavarnakerfisins þurfa að taka mið af breyttri stöðu öryggismála Evrópu.

Því þurfi að styrkja viðbúnað löggæslu, neyðar- og viðbragðsþjónustu, m.a. með uppfærslu og æfingu viðeigandi viðbragðsáætlana.

Ákveða þurfi viðmiðanir um nauðsynlegar birgðir og viðbúnað sem þurfa að vera til í landinu á hverjum tíma, einkum þegar hættu- eða neyðarástand skapast, svo sem olíubirgðir, viðhaldshlutir raforku- og fjarskiptakerfis og lyfjabirgðir sem og lágmarksbirgðir af matvælum og aðföngum til matvælaframleiðslu.

Herða skilyrði fyrir veitingu vopnaleyfis

Hvað snertir hernaðarlega þætti, fjölþáttaógnir og varnarmannvirki segir að taki þurfi mið af auknu hernaðarlegu mikilvægi landsins.

Þá er lagt til að Ísland leggi áfram áherslu á virka þátttöku í alþjóðlegu öryggis- og varnarsamstarfi í samræmi við þjóðaröryggisstefnuna og taki virkan þátt í starfi alþjóðastofnana sem tryggja framkvæmd alþjóðasamninga um afvopnunarmál og takmarkanir á útbreiðslu gereyðingarvopna.

Regluleg tímabundin viðvera liðsafla Bandaríkjanna á Íslandi hefur farið vaxandi …
Regluleg tímabundin viðvera liðsafla Bandaríkjanna á Íslandi hefur farið vaxandi á síðustu árum og tengist einkum eftirliti þeirra með rússneskum kafbátum á Norður-Atlantshafi segir í skýrslunni. Auk þess sinna þeir ásamt öðrum bandalagsríkjum NATO loftrýmisgæslu hér við land allt að fjórum sinnum á ári. mbl.is/Árni Sæberg

Þá er einnig nefnt að er kemur að hryðjuverkaógn þurfi að herða skilyrði fyrir veitingu vopnaleyfis og vörslu skotvopna. Styrkja þurfi heimildir lögreglu til eftirlits með skotvopnaeign og vörslu. Jafnframt þurfi að afnema undanþágur frá banni við innflutningi sjálfvirkra og hálfsjálfvirkra skotvopna.

Háð samfelldri virkni mikilvægra innviða

Um áfallaþol íslenska samfélagsins segir að að mörgu leyti býr Ísland við gott öryggi.

„Hér má nefna aðgengi að neysluvatni, sjálfbærni þegar kemur að raforku og varmaorku, góð fjarskipti, opið lýðræðislegt samfélag og mikið traust til stofnana á borð við lögreglu og Landhelgisgæsluna.“

Mikilvægt sé þó að efla samvinnu og samhæfingu ráðuneyta, stofnana og fyrirtækja um styrkingu áfallaþols, þ.m.t. að því er varðar mikilvæga innviði, aðfangakeðjur, heilbrigðiskerfi, orkuöryggi, viðbúnað til að tryggja samfellda starfsemi stjórnvalda auk samhæfðra almannavarnaviðbragða.

Þá segir að áfallaþolið sé þó mjög háð samfelldri virkni mikilvægra innviða og mikilvægt sé að fyrir hendi séu nauðsynlegar birgðir til þess að tryggja lífsafkomu á hættutímum.

Stýrihópurinn vann að verkefninu í samráði við ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslu Íslands og Fjarskiptastofu. Stýrihópinn skipa Þórunn J. Hafstein, ritari þjóðaröryggisráðs, dr. Valur Ingimundarson, prófessor samkvæmt tilnefningu forsætisráðherra, Ragna Bjarnadóttir, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu, og Bryndís Kjartansdóttir, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu.

Hér má lesa skýrsluna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert