Þrír dómar féllu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í málum fyrrverandi starfsmanna stéttarfélagsins Eflingar gegn félaginu og var stéttarfélagið dæmt bótaskylt í öllum þremur málunum og talið hafa brotið á stefnendum meðan á starfstíma þeirra fyrir félagið stóð.
Starfsmönnunum, stefnendum í málunum, var öllum sagt upp eftir mislangan aðdraganda og var Eflingu gert að greiða þeim 900.000, 400.000 og 1.449.629 krónur með nánar tilgreindum vöxtum og dráttarvöxtum auk þriðjungs málskostnaðar í tveimur tilfellum og tveggja þriðju hluta í einu.
Stefnandi í einu málanna hafði starfað sem gjaldkeri og hafið störf hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún árið 1982, forvera Eflingar, og því verið starfandi um hálfs fjórða áratugar skeið er málsatvik komu upp árið 2018.
Í kjölfar stjórnarskipta Eflingar það vor hafi komið upp ósætti og bar Efling því meðal annars við fyrir dómi að gjaldkerinn hefði verið ósáttur við nýjar áherslur í fjárhagsmálefnum Eflingar. Þá reis misklíð um greiðslu 35.000 króna til erlends einstaklings sem ekki var félagsmaður né starfandi á starfssvæði Eflingar. Taldi gjaldkerinn greiðsluna því ekki samræmast stefnu félagsins, slíkar beiðnir þyrfti að afgreiða á vettvangi stjórnar á grundvelli formlegs erindis.
Skömmu síðar hafi gjaldkerinn verið boðaður á fund formanns og framkvæmdastjóra Eflingar. Nefndir og forystumenn hefðu orðið þess áskynja að um misbrest væri að ræða í því sem nefnt var eðlileg miðlun upplýsinga um verklag á skrifstofunni við meðhöndlun fjármála og reikningshalds. Var misbresturinn sagður alvarlegur og óútskýrður.
Á grundvelli þessa þyrfti að funda með stefnanda og kalla eftir svörum og skýringum. Á fundinum var stefnanda tilkynnt að ekki ríkti traust milli hennar og forystu Eflingar og alvarlegur trúnaðarbrestur hefði komið upp varðandi greiðslu kostnaðar og meðhöndlun fjármuna félagsins. Fullyrti framkvæmdastjóri að hann hefði fengið rangar upplýsingar frá stefnanda sem hefði haldið frá honum gögnum og komið illa fram.
Var fjöldi annarra málsástæðna tíundaður fyrir héraðsdómi og kom fram að frá sjónarhóli stefnanda hefði andrúmsloft á vinnustaðnum verið óbærilegt í kjölfar fundarins um misbrest á eðlilegri miðlun upplýsinga um verklag á skrifstofunni við meðhöndlun fjármála og reikningshalds. Tilraun gjaldkerans til að ná sáttum hefði verið fálega tekið og hún lifað í stöðugum ótta um framtíð sína í starfi.
Var stefnanda sagt upp og kom uppsögn til, að sögn stefnda Eflingar, af því að hún hefði ekki sinnt starfi sínu af alúð heldur unnið gegn hagsmunum gagnaðila síns þannig að um algjöran trúnaðarbrest hefði verið að ræða. Mat héraðsdómur uppsögnina lögmæta en dæmdi bætur á þeim grundvelli að stefnandi hefði orðið fyrir miklum miska vegna umfjöllunar um sig í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.
Stefnandi í næsta máli starfaði í móttöku og var sagt upp eftir tólf ára starf vegna skipulagsbreytinga um mánaðamótin ágúst-september 2019. Haldinn var starfsmannafundur 30. ágúst en áður en fundurinn hófst var stefnandi boðuð á fund framkvæmdastjóra Eflingar og staðgengils skrifstofustjóra og henni tilkynnt um uppsögn ráðningarsamnings hennar í tilefni af framangreindum skipulagsbreytingum.
Starf hennar hefði verið lagt niður og félagið sæi sér ekki fært að bjóða henni annað starf við hæfi. Skyldi uppsögnin taka gildi 1. september en uppsagnarfrestur nema fjórum mánuðum án vinnuframlags í stað þeirra þriggja sem stefnandi átti rétt á samkvæmt ráðningarsamningi.
Vék stefnandi af fundi að samtali loknu og fylgdi staðgengill skrifstofustjóra henni þá á dyr eftir að henni hafði verið gefinn kostur á að taka persónulega muni á skrifstofu sinni, veski, síma og pottaplöntu. Mætti stefnandi samstarfsfólki á leið sinni út, sem var á leið á starfsmannafundinn, og greindi þá aðspurð frá því að verið væri að reka hana.
Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að uppsögnin hefði ekki verið ólögmæt en stefnanda bæru miskabætur. „Þessi aðferð var mjög meiðandi fyrir stefnanda og til þess fallin að láta líta svo út að tilefni hefði verið til að víkja henni fyrirvaralaust úr starfi,“ segir í dóminum.
Þriðji stefnandinn var bókari hjá Eflingu sem einnig var sagt upp störfum. Var hún sögð hafa „troðið illsakir við formann og framkvæmdastjóra stefnda á veikindatímabili hennar, með klögumálum, meðal annars í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum og í formi kvartana sem sendar hefðu verið til stjórnar stefnda, framkvæmdastjórnar Starfsgreinasambands Íslands og miðstjórnar Alþýðusambands Íslands“.
Í þessum erindum hefðu þungar ásakanir verið bornar á formann og framkvæmdastjóra stefnda auk þess sem stefnandi hefði ítrekað gefið í skyn að hyggjast ekki snúa aftur til starfa.
Byggði stefnandi mál sitt meðal annars á því að í kjölfar þess að hún veiktist hefðu forsvarsmenn Eflingar staðið að aðför sem falið hefði í sér einelti gagnvart henni með því að loka fyrir aðgang hennar að tölvukerfum félagsins og eins aðgang að viðskiptabanka þess sem hún hafði sem bókari. Þá hefði netfang hennar verið fjarlægt af póstlista Eflingar og nafn hennar og mynd af starfsmannalista á heimasíðu félagsins auk þess sem aðgengi hennar að Facebook-hópi starfsmanna hefði verið hindrað.
Var stefnandi þá hvorki boðuð á starfsmannafundi né viðburði á vegum Eflingar, svo sem jólahlaðborð, og starf hennar auglýst án þess að fyrir lægi hve lengi hún yrði frá af völdum veikinda sinna. Forysta Eflingar hefði staðið fyrir fjölmiðlaherferð gegn tilteknum þáverandi og fyrrverandi starfsmönnum, stefnanda þar með talinni, og þar byggt á því að kröfur væru uppi um mjög digra starfslokasamninga.
Var stefnanda veitt áminning vegna ámælisverðrar háttsemi í starfi haustið 2018 og sagt upp 12. mars 2020. Taldi héraðsdómur uppsögnina ekki ólögmæta en áminningin hefði hins vegar verið það og bæri Efling skaðabótaábyrgð á veikindum stefnanda með saknæmri og ólögmætri háttsemi sinni er falist hefði í þeirri óvægnu framgöngu að áminna stefnanda án lögmæts tilefnis og það þrátt fyrir að forsvarsmönnum Eflingar væri kunnugt um að stefnandi ætti við andlega erfiðleika að stríða vegna mikilla breytinga á vinnustaðnum.
Segir svo í dómi héraðsdóms: „Ef ekki hefði komið til þessarar áminningar má gera því skóna að stefnandi hefði haldið áfram störfum sínum forfallalaust og ekki orðið fyrir því fjárhagstjóni sem veikindaforföllin höfðu í för með sér. Tjón stefnanda að þessu leyti er þannig sennileg afleiðing af saknæmri og ólögmætri framgöngu stefnda og því bótaskylt úr hans hendi.“