Mál Guðmundar fyrir Landsrétt á ný

Hæstiréttur hefur vísað máli Guðmundar Andra Ástráðssonar til Landsréttar á …
Hæstiréttur hefur vísað máli Guðmundar Andra Ástráðssonar til Landsréttar á nýjan leik. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hæstirétt­ur vísaði í dag máli Guðmund­ar Andra Ástráðsson­ar aft­ur til Lands­rétt­ar til nýrr­ar meðferðar og dóms­álagn­ing­ar og ómerkti um leið dóm Lands­rétt­ar frá 23. mars 2018 en í því máli hafði Guðmund­ur verið sak­felld­ur fyr­ir akst­ur bif­reiðar án öku­rétt­inda og und­ir áhrif­um áv­ana- og fíkni­efna.

Í kjöl­far þess er Hæstirétt­ur staðfesti dóm Lands­rétt­ar í lok maí 2018 bar Guðmund­ur málið und­ir Mann­rétt­inda­dóm­stól Evr­ópu á þeirri for­sendu að hann hefði ekki notið rétt­látr­ar málsmeðferðar fyr­ir óháðum og óhlut­dræg­um dóm­stól svo sem áskilið er í stjórn­ar­skrá lýðveld­is­ins og 1. máls­grein 6. grein­ar mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu.

Ekki tal­in ástæða til að draga rétt­læti í efa

Byggði Guðmund­ur mál sitt á því að einn lands­rétt­ar­dóm­ar­anna sem um mál hans fjölluðu hefði ekki verið lög­lega skipaður með vís­an til lands­rétt­ar­máls­ins svo­kallaða sem átti sér upp­tök í skip­un þáver­andi dóms­málaráðherra, Sig­ríðar Á. And­er­sen, á fjór­um dómur­um í júní 2017 sem ráðherra tók fram yfir þá um­sækj­end­ur sem dóm­nefnd um hæfi dóm­ara hafði talið hæf­ari.

Taldi Hæstirétt­ur, við meðferð máls Guðmund­ar vorið 2018, að ekki hefði verið næg ástæða til að draga í efa að Guðmund­ur hefði, þrátt fyr­ir þá ann­marka sem á málsmeðferð ráðherra voru, notið rétt­látr­ar málsmeðferðar fyr­ir Lands­rétti.

Í kjöl­far þess er Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu dæmdi að meðferð máls­ins fyr­ir Lands­rétti hefði tal­ist brot gegn rétt­ind­um Guðmund­ar sam­kvæmt mann­rétt­inda­sátt­mál­an­um, og dæmdi auk þess ís­lenska ríkið til að bæta hon­um kostnað og út­gjöld vegna máls­ins fyr­ir dóm­stóln­um, dæmdi End­urupp­töku­dóm­ur 31. mars á þessu ári að Hæstirétt­ur skyldi taka málið fyr­ir að nýju.

Seg­ir meðal ann­ars í dómi Hæsta­rétt­ar í dag að þótt úr­lausn­ir Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu séu ekki bind­andi að ís­lensk­um lands­rétti hafi í dóma­fram­kvæmd Hæsta­rétt­ar verið litið til úr­lausna dóm­stóls­ins við skýr­ingu mann­rétt­inda­sátt­mál­ans þegar reyni á ákvæði hans sem hluta af ís­lensk­um lands­rétti og vís­ar Hæstirétt­ur í fyrri dóma sína því til stuðnings.

Ákærði hefði ekki notið áskil­inna rétt­inda

Seg­ir svo í dómi Hæsta­rétt­ar: „Í ljósi alls of­an­greinds, meðal ann­ars þeirra ann­marka sem Hæstirétt­ur taldi hafa verið á málsmeðferð dóms­málaráðherra í aðdrag­anda skip­un­ar þess dóm­ara sem sat í dómi Lands­rétt­ar og dæmdi mál ákærða og með hliðsjón af dómi Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu í máli ákærða verður miðað við að hann hafi ekki notið þeirra rétt­inda sem sökuðum manni eru áskil­in í 2. málslið 1. mgr. 6. gr. mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu. Sam­kvæmt fram­an­sögðu ber að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa mál­inu til Lands­rétt­ar til lög­legr­ar meðferðar og dóms­álagn­ing­ar þar að nýju.“

Bíði ákvörðun um sak­ar­kostnað vegna fyrri málsmeðferðar fyr­ir Lands­rétti og nýrr­ar málsmeðferðar nýs dóms en all­ur áfrýj­un­ar­kostnaður fyr­ir Hæsta­rétti greiðist úr rík­is­sjóði.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert