Mál Guðmundar fyrir Landsrétt á ný

Hæstiréttur hefur vísað máli Guðmundar Andra Ástráðssonar til Landsréttar á …
Hæstiréttur hefur vísað máli Guðmundar Andra Ástráðssonar til Landsréttar á nýjan leik. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hæstiréttur vísaði í dag máli Guðmundar Andra Ástráðssonar aftur til Landsréttar til nýrrar meðferðar og dómsálagningar og ómerkti um leið dóm Landsréttar frá 23. mars 2018 en í því máli hafði Guðmundur verið sakfelldur fyrir akstur bifreiðar án ökuréttinda og undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Í kjölfar þess er Hæstiréttur staðfesti dóm Landsréttar í lok maí 2018 bar Guðmundur málið undir Mannréttindadómstól Evrópu á þeirri forsendu að hann hefði ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól svo sem áskilið er í stjórnarskrá lýðveldisins og 1. málsgrein 6. greinar mannréttindasáttmála Evrópu.

Ekki talin ástæða til að draga réttlæti í efa

Byggði Guðmundur mál sitt á því að einn landsréttardómaranna sem um mál hans fjölluðu hefði ekki verið löglega skipaður með vísan til landsréttarmálsins svokallaða sem átti sér upptök í skipun þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríðar Á. Andersen, á fjórum dómurum í júní 2017 sem ráðherra tók fram yfir þá umsækjendur sem dómnefnd um hæfi dómara hafði talið hæfari.

Taldi Hæstiréttur, við meðferð máls Guðmundar vorið 2018, að ekki hefði verið næg ástæða til að draga í efa að Guðmundur hefði, þrátt fyrir þá annmarka sem á málsmeðferð ráðherra voru, notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir Landsrétti.

Í kjölfar þess er Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi að meðferð málsins fyrir Landsrétti hefði talist brot gegn réttindum Guðmundar samkvæmt mannréttindasáttmálanum, og dæmdi auk þess íslenska ríkið til að bæta honum kostnað og útgjöld vegna málsins fyrir dómstólnum, dæmdi Endurupptökudómur 31. mars á þessu ári að Hæstiréttur skyldi taka málið fyrir að nýju.

Segir meðal annars í dómi Hæstaréttar í dag að þótt úrlausnir Mannréttindadómstóls Evrópu séu ekki bindandi að íslenskum landsrétti hafi í dómaframkvæmd Hæstaréttar verið litið til úrlausna dómstólsins við skýringu mannréttindasáttmálans þegar reyni á ákvæði hans sem hluta af íslenskum landsrétti og vísar Hæstiréttur í fyrri dóma sína því til stuðnings.

Ákærði hefði ekki notið áskilinna réttinda

Segir svo í dómi Hæstaréttar: „Í ljósi alls ofangreinds, meðal annars þeirra annmarka sem Hæstiréttur taldi hafa verið á málsmeðferð dómsmálaráðherra í aðdraganda skipunar þess dómara sem sat í dómi Landsréttar og dæmdi mál ákærða og með hliðsjón af dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli ákærða verður miðað við að hann hafi ekki notið þeirra réttinda sem sökuðum manni eru áskilin í 2. málslið 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt framansögðu ber að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar þar að nýju.“

Bíði ákvörðun um sakarkostnað vegna fyrri málsmeðferðar fyrir Landsrétti og nýrrar málsmeðferðar nýs dóms en allur áfrýjunarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert