Steinunn Ása handhafi Kærleikskúlunnar

Steinunn Ása Þorvaldsdóttir er handhafi Kærleikskúlunnar 2022 en hún hefur …
Steinunn Ása Þorvaldsdóttir er handhafi Kærleikskúlunnar 2022 en hún hefur látið til sín taka á mörgum sviðum samfélagsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Steinunn Ása Þorvaldsdóttir er handhafi Kærleikskúlunnar 2022. Hún hefur látið til sín taka á mörgum sviðum samfélagsins, í réttindabaráttu fatlaðs fólks, boðið sig fram til Alþingis til að fylgja eftir hugsjónum sínum, tekist á við stofnanir og stjórnvöld ef þurft hefur og er hún einn af þáttastjórnendum sjónvarpsþáttarins margverðlaunaða „Með okkar augum“.

Framangreint kemur fram í fréttatilkynningu frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra sem staðið hefur að útgáfu Kærleikskúlunnar allar götur síðan 2003.

Er þar enn fremur greint frá því að nýlega hafi bæklingurinn Saga Steinunnar komið út hjá mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar. Rekur Steinunn Ása þar sína sögu auk þess að fara yfir reynslu sína af fordómum og ofbeldi. Segir þar meðal annars:

„Fáfræði er líka hræðsla – og fordómar eru hluti af okkur en við megum ekki láta fordóma stjórna okkur [...] það er mikilvægt að samfélagið taki fötluðu fólki eins og það er, beri virðingu fyrir því og geri ráð fyrir okkur. [...] Eins og margoft hefur komið fram þá er það mikilvægt að halda áfram og gefast ekki upp. Reynslan okkar hjálpar til. Í dag er ég sjálf sterk og hugrökk kona sem vil segja söguna mína …“

Kúla með stroku eftir þýsku listakonuna Karin Sander er Kærleikskúla …
Kúla með stroku eftir þýsku listakonuna Karin Sander er Kærleikskúla ársins 2022. Karin hefur verið viðloðandi íslenskt listalíf síðan snemma á tíunda áratugnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilgangurinn að auðga líf fatlaðra barna

Kærleikskúlan kemur nú út í tuttugasta sinn en hún er gefin út í takmörkuðu upplagi og hefur, eftir því sem segir í tilkynningu, hlotið frábærar viðtökur landsmanna gegnum árin.

„Tilgangurinn með sölu Kærleikskúlunnar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna, með því að efla starfsemi Reykjadals í Mosfellsdal sem Styrktarfélagið á og rekur ásamt Æfingastöðinni í Reykjavík. Boðið er upp á bæði sumar- og helgardvöl allt árið um kring sem er börnunum, ungmennum og fjölskyldum þeirra afar mikilvæg en þar er lagt upp úr því að allir upplifi gleði og ævintýri – eignist vini og dýrmætar minningar,“ segir þar.

Bæklingurinn Saga Steinunnar kom nýlega út hjá mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu …
Bæklingurinn Saga Steinunnar kom nýlega út hjá mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar. Rekur Steinunn Ása þar sína sögu auk þess að fara yfir reynslu sína af fordómum og ofbeldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kærleikskúlan 2022 var afhjúpuð við hátíðlega athöfn í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur í dag, 7. desember, og stendur sölutímabil hennar til 23. desember. Kúla með stroku eftir þýsku listakonuna Karin Sander er Kærleikskúla ársins 2022. Karin hefur verið viðloðandi íslenskt listalíf síðan snemma á tíunda áratugnum og er í dag einn fremsti og afkastamesti listamaður sinnar kynslóðar. Verk hennar hafa verið sýnd um heim allan og finnast í opinberum söfnum og safneignum víða um lönd en hún verður fulltrúi Sviss á átjánda alþjóðlega arkitektúrtvíæringnum í Feneyjum á komandi ári.

FYRRI KÆRLEIKSKÚLUR:

2003 – 2 MÁLARAR – Erró

2004 – AUGAÐ – Ólafur Elíasson

2005 – ÁN UPPHAFS – ÁN ENDIS – Rúrí

2006 – SALT JARÐAR – Gabríela Friðriksdóttir

2007 – HRINGUR – Eggert Pétursson

2008 – ALLT SEM ANDANN DREGUR – Gjörningaklúbburinn

2009 – SNERTING – Hreinn Friðfinnsson

2010 – FJARLÆGÐ – Katrín Sigurðardóttir

2011 – SKAPAÐU ÞINN EIGIN HEIM – Yoko Ono

2012 – LOKKANDI – Hrafnhildur Arnardóttir

2013 – HUGVEKJA - Ragnar Kjartansson

2014 – MANDARÍNA - Davíð Örn Halldórsson

2015 – LANDSLAG - Ragna Róbertsdóttir

2016  - SÝN - Sigurður Árni Sigurðsson

2017 - ŪGH & BõÖGâr – Egill Sæbjörnsson

2018 – TERELLA – Elín Hansdóttir

2019 – SÓL ÉG SÁ – Ólöf Nordal

2020 – ÞÖGN – Finnbogi Pétursson

2021 – EITT ÁR – Sirra Sigrún Siguðardóttir

2022 – KÚLA MEÐ STROKU – Karin Sander

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert