Fyrsta fjárhagsáætlun meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, og Viðreisnar var samþykkt í borgarstjórn í gærkvöldi.
„Áætlunin tekur mið af nýrri þjóðhagsspá Hagstofunnar og gerir ráð fyrir áframhaldandi vexti borgarinnar og fullri fjármögnun grunnþjónustu en aðhaldi í öðrum rekstri,“ segir í tilkynningu frá borginni.
Þá samþykkti borgarstjórn einnig nýja fjármálastefnu og fjárhagsáætlun til næstu fimm ára 2023-2027.
Fjárhagsáætlun var samþykkt með afgreiðslu á yfir 100 hagræðingar- og umbótatillögum sem lagðar voru fram við síðari umræðu um áætlunina.
Niðurstaðan gerir ráð fyrir aðhaldi í rekstri til að styrkja afkomu á rekstri A-hluta borgarsjóðs.
„Dregið verður saman í fjárfestingu frá fyrri áætlun en áfram verður kraftur settur í viðhaldsmál og uppbyggingu grænna innviða í vaxandi borg. Þá verður farið í margvíslegar aðgerðir til að auka skilvirkni í rekstri og hagræða á öllum sviðum starfsemi borgarinnar með það að markmiði að ekki komi til skerðingar á velferðar- og skólaþjónustu.“