Borgin hafði ekkert samráð við Geðhjálp

Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjápar.
Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjápar.

Landssamtökin Geðhjálp hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er yfir áhyggjum vegna niðurskurðartillagna borgarstjórnar sem snúa að velferðarúrræðum. Í tillögum borgarstjórnar kemur fram að fyrirhuguð er lokun Vinjar, athvarfs fólks sem býr við geðrænar áskoranir.

Í tillögum borgarstjórnar segir: „Þjónusta til að koma til móts við félagsstarf fólks með geðraskanir verði útfært í samráði við félagið Geðhjálp.“ Það hefur hins vegar ekki verið gert og lýsa landssamtökin Geðhjálp því yfir miklum vonbrigðum að tillögurnar hafi verið unnar með hraði og án samráðs við hagaðila.

Geðheilbrigðismál fjársvelt

Í ályktuninni segir einnig að geðheilbrigðiskerfið sé vanfjármagnað og hafi verið í áratugi og að til þess sé veitt aðeins 5% af heildarfjárframlögum til heilbrigðismála. Þrátt fyrir að Geðhjálp hafi bent á það ítrekað að það þurfi að gera stórátak í forvörnum, þá farið aðeins 1-2% af framlögum í málaflokkinn til forvarna en 98% í meðferð og endurhæfingu.

Meiri kostnaður til lengri tíma litið

„Nærþjónustan er á hendi sveitarfélaganna og því hefur boðaður niðurskurður nú í för með sér minna fjármagn í forvarnir og heilsueflingu. Landssamtökin Geðhjálp skora á Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög að hafa það í huga að niðurskurður á heilsueflingu og forvörnum á næsta ári kann að hafa í för með sér aukin vanda og mun meiri kostnað inn í framtíðina,“ segir í ályktun samtakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert