Fyrning orlofs er ólögmæt

Evrópudómstóllinn dæmdi í máli frá áfrýjunarrétti Þýskalands á þann veg …
Evrópudómstóllinn dæmdi í máli frá áfrýjunarrétti Þýskalands á þann veg að atvinnurekendum ber skylda til að senda starfsmenn í orlof ef það hefur safnast saman, því það geti ekki fyrnst þótt það sé ekki tekið. Wikipedia/Luxofluxo

Dómur féll í Evrópudómstólnum 22. september síðastliðinn í máli frá áfrýjunarrétti Þýskalands um hvort orlof sem ekki hafði verið tekið myndi fyrnast sjálfkrafa á þremur árum. 

Dómurinn var óyggjandi og sagt að sjálfkrafa fyrning áunnins orlofs sé ólögmæt ef atvinnurekandi hafi ekki sett starfsmenn í aðstöðu til að geta nýtt sér téð orlof.

Í íslensku samhengi staðfestir þessi dómur túlkun lögfræðinga ASÍ að atvinnurekendum beri að sjá til þess að starfsmenn þeirra taki launað orlof sem þeir eiga rétt á og það sé ekki löglegt að hafa af þeim frídaga né orlofsfé. En ætli mörg svona mál hafi komið inn á borð ASÍ?

Ágreiningur við opinbera aðila

„Það er ágreiningur í gangi við mannauðs- og starfsumhverfissvið Reykjavíkurborgar, við kjara- og mannauðssýslu ríkisins og við samband íslenskra sveitarfélagana um þessi orlofsmál,“ segir Magnús Norðdahl lögfræðingur hjá ASÍ.

Magnús Norðdahl lögfræðingur hjá ASÍ.
Magnús Norðdahl lögfræðingur hjá ASÍ. mbl.is

„Það var sett inn ákvæði í kjarasamninga 2020 þess efnis að orlof, með tilteknum skilyrðum, sem ekki hefur verið tekið í apríl 2023 falli niður. Þá kemur upp túlkunarágreiningur um hvað þetta þýði. Okkar skoðun var sú að það væri ekki hægt að líta þannig á að þetta félli niður sjálfkrafa heldur yrði atvinnurekandinn að hafa á þessum tíma verið búinn að koma starfsmanninum í leyfi. Það er frumskylda atvinnurekenda að sjá til þess að aðbúnaður og hollustuhættir séu varðveittir á vinnustöðum og þar með líka að fólki fái hvíld frá störfum í formi orlofs,“ segir Magnús.

Farðu í frí!

Hann segir Reykjavíkurborg, ríkið og samband íslenskra sveitarfélaga hafa sent Alþýðusambandinu formlegt bréf þar sem þeir neituðu þessari túlkun og sögðu að orlofið félli sjálfkrafa niður ef starfsfólkið hefði ekki komið sér í frí. Því voru lögfræðingar Alþýðusambandsins ekki sammála og sögðu atvinnurekendur ábyrga sem væri staðfest af Evrópudómstólnum í þessum dómi. 

„Það er hlutverk atvinnurekenda að koma og segja við þig: „Heyrðu, kæri vinur. Þú átt hérna inni sextíu daga í orlofi sem ekki hefur verið tekið. Þú átt að taka það núna! Farðu í frí!““

Allt hægt að rekja til ólánlegs orðalags

Magnús segir að orlofslögin séu skipulögð þannig að við getum óskað eftir orlofi á einhverjum sérstökum tíma, en ef við gerum það ekki þá á atvinnurekandinn að skikka okkur í orlof. „Það er frumskylda hans, en einhvern veginn virðast ríki, borg og sveitarfélög hafa gleymt þessari skyldu sinni.“ Magnús segist einnig hafa verið í ágreiningi með sama mál gagnvart Samtökum atvinnulífsins en sá ágreiningur hafi verið leystur.

„Þannig að þetta er hið opinbera og þetta má allt rekja til þessa ólánlega orðalags í samningsákvæðinu,” segir Magnús og segist að lokum vilja ítreka það að það sé nauðsynlegt þegar gengið sé frá kjarasamningum að þeir séu vandlega yfirlesnir svo ekkert þar orki tvímælis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert