Eldur kom upp í dæluhúsi einnar af borholum Selfossveitna í Þorleifskoti í Flóahreppi í nótt og hefur viðbragðsáætlun Selfossveitna verið virkjuð.
Frá þessu er greint á vef sveitarfélagsins Árborgar og eru íbúar hvattir til að fara sparlega með vatn.
Í fréttinni segir að rafmagnsskápur hafi brunnið og fyrir vikið sé orkuöflun hitaveitunnar verulega skert.
Tilkynning barst um bilun klukkan þrjú í nótt og þá varð vaktmaður eldsins var.
„Slökkviliðið var kallað út ásamt HS veitum til að rjúfa straum á húsinu. Slökkvistarfið gekk vel en það er algjör mildi að eldurinn barst ekki í húsið, því þetta er timburhús,“ er haft eftir Sigurði Þór Haraldssyni veitustjóra á vef Sunnlenska.