Skáldskapur um ráðherrana Lúsífer, Hel og Sauron

Björn Leví Gunnarsson.
Björn Leví Gunnarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Allar persónur sem fjallað er um eru skáldskapur. Öll hugrenningatengsl við alvörupersónur eða atburði eru á ábyrgð lesanda.“

Þetta kemur fram í tengslum við minnihlutaálit fjárlaganefndar Alþingis, sem Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pítara, lagði fram, þar sem hann gagnrýnir fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár og hvernig fjármunum er úthlutað.

Þrír bræður sem voru ráðherrar

Í upphafi álitsins fjallar Björn Leví um þrjá bræður, Lúsífer, Hel og Sauron sem voru ráðherrar í ríkisstjórn og „vantaði pening til að sýna hversu góðir þeir væru“.

„Lúsífer, elsti bróðirinn, var refsingamálaráðherra og fannst það ofsalega gaman. Hel, miðbróðirinn, vildi líka vera refsingamálaráðherra en fékk það ekki og varð að sætta sig við að vera furðugöngumálaráðherra. Sauron, yngsti bróðirinn, var hringamálaráðherra. Það þýddi að hann réð í rauninni öllu en enginn vissi það samt, eða það hélt Sauron a.m.k.,“ skrifar Björn Leví og bætir síðar við: „Sauron fékk heilan helling af pening sem hann vissi ekkert hvað hann átti að gera við og vildi meira svo að hann hefði meiri pening sem hann vissi ekkert hvað hann ætti að gera við.“

Mestu mistökin í húsnæðismálum

Í framhaldinu talar þingmaðurinn um framlög til fangelsis-, mennta-, heilbrigðis- og félagsmála og nefnir að gagnsæi skorti í fjármálum ríkisins.

Hann segir ein mestu mistökin hafa verið gerð í húsnæðismálum undanfarin ár. Vitnar hann þar í Ólaf Margeirsson, doktor í hagfræði, um að verðbólga á Íslandi sé fyrst og fremst vegna skorts á íbúðum.

Björn Leví Gunnarsson.
Björn Leví Gunnarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hver er ástæðan fyrir því að það er skortur á íbúðum? Er það af því að það eru ekki til nægar lóðir til þess að byggja íbúðir (sem þýðir þá að sveitarfélögin og greiningar t.d. Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eru að gefa okkur rangar upplýsingar) eða eru þetta framkvæmdaraðilarnir að viðhalda skortstöðu á markaði? Við verðum að hífa okkur upp úr pólitískum skotgröfum um hvort það séu ekki nægilega margar lóðir bara í Reykjavík yfir í að svara þessari spurningu á yfirvegaðan og gagnadrifinn hátt,“ skrifar Björn Leví.

„Það gengur hvorki að sveitarfélögin séu að blekkja okkur um hversu margar lóðir eru byggingarhæfar, að framkvæmdaraðilar haldi lóðum í gíslingu né að pólitíkin túlki aðstæður fyrir eigið skítkast í eina eða aðra áttina.“

Reyna ekki að lagfæra halla

Hann segir ríkistjórnina ekki leggja til neinar breytingar til að lagfæra undirliggjandi halla ríkisins.

„Þvert á móti eiginlega er skortstöðu á húsnæðismarkaði leyft að viðgangast, ekki er komið til móts við þjónustuþörf í heilbrigðiskerfinu, innviðaskuldin safnar upp viðhaldsvöxtum í eignasafni hins opinbera og gengið er á réttindi borgara, hvort sem þau eru fangelsuð eða frjáls, því að þetta aðgerðaleysi kostar og það eru heimilin sem eru að borga tugi þúsunda í hverjum mánuði, bara út af hærri verðbólgu vegna húsnæðisstefnu stjórnvalda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert