Tekist á um 18 ára gamla millifærslu

Lögmenn hinna stefndu í málinu. (f.v.) Ragnar Hall, Kristín Edwald, …
Lögmenn hinna stefndu í málinu. (f.v.) Ragnar Hall, Kristín Edwald, Ragnar Björgvinsson og Ólafur Eiríksson. mbl.is/Þorsteinn

Talsverðu var tjaldað til í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær þegar tekist var á um 18 ára gamla millifærslu. Var þar tekið fyrir mál félagsins Lyfjablóms ehf. gegn Birki Kristinssyni, fjárfesti og fyrrverandi landsliðsmarkmanni í knattspyrnu, Stefáni Bergssyni endurskoðanda og endurskoðendaskrifstofunni PWC og Sólveigu Pétursdóttur, fyrrverandi ráðherra, fyrir hönd dánarbús Kristins Björnssonar. Þá var yfirlögfræðingur Glitnis Holdco einnig sem réttargæslumaður þess félags. Teknar voru skýrslur af tíu manns auk þess sem tvö vitni mættu ekki.

Tekist er á um 46 milljóna millifærslu sem gerð var árið 2005 og ætti mögulegt brot þess vegna að vera fyrnt, en forsvarsmaður Lyfjablóms telur að hin stefndu hafi á skipulagðan hátt, árum saman, dregið dul á atvik málsins og hvað varð um fjármunina og því eigi fyrning ekki að hefjast fyrr en hann fékk upplýsingar um málið. Þá er einnig ljóst út frá spurningum og viðbrögðum lögmanna að þetta mál er hluti af fleiri málum sem til eru komin vegna reksturs Lyfjablóms, en félagið hét áður Björn Hallgrímsson ehf. (hér eftir BH), og bíða tvö slík mál nú meðferðar Landsréttar.

Félagið kennt við fjölskylduföðurinn

Félagið er kennt við Björn Hallgrímsson sem var umsvifamikill í fyrirtækjarekstri og fjárfestingum á síðustu öld og um aldamótin, þegar BH var stofnað, arfleiddi hann fjögur börn sín (Kristin, Sjöfn, Áslaugu og Emilíu) að fjárfestingunum sínum og setti í félagið. Áttu þau 25% hlut hvert, en meirihluta stjórnar þurfti til að skuldbinda félagið, þ.e. allavega þrjú af börnunum fjórum. Kristinn var í forsvari fyrir félagið af hálfu systkinanna og með prókúru.

Árið 2006 varð BH, í gegnum dótturfélög sín, annar af kjölfestufjárfestum fjárfestingafélagsins Gnúps með 46% hlut og var það stærsta fjárfesting félagsins. Töpuðust þeir fjármunir allir í ársbyrjun 2008 þegar Glitnir tók yfir Gnúp og BH. Var nafni BH í kjölfarið breytt í Lyfjablóm.

Sonur Áslaugar, Björn Thorsteinsson, keypti Lyfjablóm af Glitni fyrir nokkrum árum og hefur hann síðan, með stuðningi foreldra sinna, staðið í málaferlum vegna reksturs fjölskyldufyrirtækisins árin fyrir hrun. Báru þau meðal annars bæði vitni fyrir dóminum í gær. Hefur hann komist í ýmiss gögn tengd rekstrinum, bæði hjá opinberum stofnunum og endurskoðunarfyrirtæki þess, í krafti þess að vera nýr eigandi félagsins.

Millifærslan

Þetta mál á rætur að rekja til millifærslu sem gerð var í janúar 2005, en í stefnu er upphafið sagt ná til desember 2004. Þá sendi Kristinn tölvupóst á Birki, sem þá var viðskiptastjóri hjá Glitni fyrir BH, dótturfélög þess og stóran hluta fjölskyldunnar, og bað um upplýsingar um viðskipti frá því að hann keypti bréf í Straumi fjárfestingarbanka í nafni eigin fjárfestingafélags, Mercatura. Hins vegar kom einnig fram að  upphæðin hafði verið skuldfærð af reikningi BH. Í framhaldinu bað Kristinn um að lánið yrði fært af BH yfir á Mercatura fyrir áramót.

Eftir áramót sendi Kristinn svo póst þar sem hann óskaði eftir að yfirdráttur Mercatura væri greiddur af reikningi BH og var orðið við því, en þar er um að ræða fyrrnefndar 46 milljónir.

Jón Þór Ólason, lögmaður Lyfjablóms ásamt Birni Thorsteinssyni, eiganda félagsins.
Jón Þór Ólason, lögmaður Lyfjablóms ásamt Birni Thorsteinssyni, eiganda félagsins. mbl.is/Þorsteinn

Lögmaður þurfti að víkja úr salnum

Áður en skýrslutökur gátu hafist var hins vegar farið fram á að Ragnar Hall, lögmaður Sólveigar, myndi víkja úr salnum þar sem hann var sjálfur á vitnalista. Settist sonur hans, Gísli Hall, því í sæti föður síns og var þar stóran hluta dagsins þangað til Ragnar hafði sjálfur gefið skýrslu og tók sæti sem lögmaður í málinu á ný.

Í skýrslutökum yfir Birni kom ljóst fram að hann teldi að þessi millifærsla hafi verið ólögmæt og að Birkir hafi liðsinnt Kristni við að framkvæma hana án þess að systurnar hafi verið upplýstar um málið. Þeim feðgum hafi byrjað að berast orðrómur um ýmislegt misjafnt í rekstri BH og Gnúps eftir yfirtökuna og að illa hafi gengið að fá gögn um félagið, fyrst frá Kristni og síðar endurskoðanda og lögmanni félagsins.

Í stefnu málsins er því jafnframt haldið fram að Stefán hafi liðsinnt Kristni að halda millifærslunni leyndri og þar með ekki sinnt skyldum sínum sem endurskoðandi. Hann hafi jafnframt með margvíslegum skýringum reynt að hylma yfir háttsemina.

Eigið fé upp á 12 milljarða

Birkir staðfesti fyrir dóminum að hann hefði séð um fjárfestingar, eignastýringu og ráðgjöf fyrir BH sem og fleiri af eigendum félagsins. Sagði hann jafnframt að BH hefði verið nokkuð umfangsmikill viðskiptavinur, en síðar kom fram í máli eiginmanns Áslaugar að eigið fé BH samstæðunnar hefði verið um 12 milljarðar á tímabili og félagið án skulda.

Birkir sagði að samskiptin við Kristinn hefðu verið eðlilegur hluti af sambandi viðskiptavinar við viðskiptastjóra og að eðlilegt hefði verið að svara beiðni Kristins um að fá yfirlit yfir viðskipti BH. Þá hafi einnig verið eðlilegt að aðstoða við að finna bestu fjármögnunarmöguleikana og að beiðnir sem hann hafi ekki getað afgreitt sjálfur, eins og lánveitingar, hafi hann komið áfram innan bankans.

Hefði eins getað framkvæmt millifærsluna sjálfur

Þannig sagðist Birkir ekki hafa sjálfur framkvæmt umrædda millifærslu, heldur sent hana áfram til bakvinnslu. Hann hafi ekki gert neinar athugasemdir enda hafi Kristinn verið prókúruhafi og stjórnarmaður félagsins og að ef hann hefði viljað hefði Kristinn getað framkvæmt millifærsluna í næsta útibúi eða í netbanka. Þá svaraði hann því hvort þetta væri stór beiðni á mælikvarða BH að svo væri ekki.

Lögmaður Lyfjablóms spurði Birki hvort hann og Kristinn hefðu verið viðskiptafélagar, en eins og hefur m.a. komið fram var Birkir ásamt bróður sínum Magnúsi Kristinssyni eigandi að 47% hlut í Gnúpi á móti samsvarandi hlut Kristins og fjölskyldu hans. Svaraði Birkir því til að þeir hefðu „engan veginn“ verið viðskiptafélagar.

„Ég þarf að geta mætt þessari vörn þeirra“

Við næstu spurningu, sem tengdist því hvort Birkir hefði aðstoðað Björn Hallgrímsson við hlutabréfasölu, brást lögmaður Birkis við með athugasemd og spurði hvernig þetta kæmi málinu við. Komst nokkur hiti í málróm lögmanna, en lögmaður Lyfjablóms gerði grein fyrir því að komið hefðu fram fjölbreyttar varnir af hálfu stefndu í málinu og að hann væri með þessu að undirbúa eigin varnir. „Ég þarf að geta mætt þessari vörn þeirra,“ sagði hann háum rómi og fékk þá svör frá lögmanni Birkis sem sagði að þetta væri liður í því að fullt af öðrum málum væru í gangi og átti greinilega við að spurningar í þessu máli væru einnig nýttar fyrir önnur málaferli. Lögmaður Lyfjablóms sagði hins vegar að þetta væru spurningar „beint inn í þetta mál.“

Lán til eiganda

Endurskoðandinn Stefán var næstur í vitnastúkuna, en hann hafði fært bókhald og endurskoðað BH og önnur félög fjölskyldunnar um langan tíma. Sagðist hann hafa fengið skýringu á þessum 46 milljónum frá Kristni sem hefði sagt sér að Björn faðir sinn hefði ætlað þær til meðfjárfestinga fyrir Kristinn með sér.

Eins og fram kom síðar við skýrslutökur er lán til eigenda eða stjórnarmanna ekki heimilt samkvæmt lögum, en Björn hafði einnig arfleitt börn sín að öllum hlutum í BH fyrir þennan tíma. Stefán sagði samt að við þann gjörning hafi öllum verið ljóst að Björn myndi áfram reka fjölskyldufélagið þangað til hann myndi ákveða annað.

200 milljóna munur

Var hann einnig spurður um fundargerð stjórnar BH sem dagsett var sumarið 2007. Stefán er skráður sem fundarritari, en hann segist þó ekki hafa verið viðstaddur fundinn eða hafa ritað fundargerðina. Átti fundargerðin eftir að koma talsvert við sögu í þinghaldinu. Samkvæmt fundargerðinni samþykkti stjórnin að kaupa eigin hlutabréf. Þar kemur hins vegar inn annað álitaefni, en kaupa átti eigin bréf fyrir rúmlega 1.600 milljónir, en raunin varð rúmlega 1.400 milljónir. Munaði um 200 milljónum þarna á milli og eru mismunandi skýringar á því.

Sagði Stefán að við endurkaupin hafi átt að „slétta út“ allar stöður sem tengdust hluthöfum, m.a. vegna uppgjörs dánarbús Björns Hallgrímssonar, skuldar Kristins og skuldar Gunnars, eiginmanns Áslaugar. Lagt hafði verið fram samantektarskjal við meðferð málsins varðandi þetta. Sagði Stefán að Björn Hallgrímsson hafði jafnframt skuldað félaginu 90 milljónir eftir að hafa selt bréf í Sjóvá og Skeljungi á sínum tíma og lagt inn á eigin bankareikning.

Spurður nánar út í þessar 90 milljónir sagði Stefán að hann hefði á sínum tíma skammað Björn fyrir þetta, bæði vegna þess að hann væri að taka peninga til sín, en líka því þetta væri ekki hagkvæmt skattalega. „Hann gaf mér ákveðin svör en ég ætla ekki að hafa það eftir honum. Hann átti þetta félag á þessum árum þó að hann væri búinn að arfleiða börnin sín að þessu,“ bætti hann við.

Horft inn í framtíðina 

Samantektarskjalið er einnig frá sumrinu 2007, réttara sagt 5. júlí. Fram kom við skýrslutökur í gær að í því sé hins vegar vísað til kostnaðar sem kemur til 30. nóvember þetta sama ár, ferðar sem „allir fóru í til Milanó“ að sögn Stefáns, en félagið var látið borga. Spurður út í hvernig reikningur frá því í nóvember gæti ratað inn í skjal sem á að vera ritað 4 mánuðum áður gangi upp sagðist Stefán ekki vita hvernig þessi dagsetning hafi ratað inn.

Við spurningar lögmanns Stefáns kom svo í ljós að Stefán taldi að Kristinn hefði ekki gert upp 46 milljóna skuldina, en að það væri systranna að ganga á eftir slíku uppgjöri. Sagðist hann ekki vita til þess að skuldin hafi verið gerð upp við uppgjör dánarbúsins. Ekki kom nánari skýring fram á því hvernig bæði gengi upp að þessi skuld hefði verið gerð upp með kaupunum á eigin bréfum og að hún væri ekki gerð upp.

Telja fjárhagsstöðu Kristins tengjast millifærslunni

Ragnar Hall, lögmaður BH og margra í fjölskyldunni til fjölda ára, er lögmaður Sólveigar og dánarbús Kristins í málinu. Hann kom næst í vitnastúkunar og kom því aftur í salinn eftir gott hlé utan salarins. Hafði hann í fyrri skýrslutökum í öðrum málum talað um 1.400 milljóna endurkaup og var spurður út í fyrrnefndan mismun. Sagðist hann hafa fengið skjöl frá Stefáni sem sýndu þessar auka 200 milljónir, en ekki verið áður upplýstur um að þessar 200 milljónir hefðu verið greiddar með öðru en peningum út úr félaginu þá eða áður.

Lögmaður Lyfjablóms gekk svo á Ragnar með fleiri spurningar sem meðal annars tengdust Kristni og félögum hans og spurði Ragnar þá hvort hann ætti að svara fyrir atriði sem tengdust ekki beint 46 milljóna millifærslunni. Svaraði lögmaður Lyfjablóms að hann teldi að fjárhagsstaða Kristins á þessum tíma væri ástæða þess hvernig gengið væri frá millifærslunni og fékk hann þá áfram að spyrja Ragnar.

Sagði Ragnar að hann hefði aldrei verið í mikilli vinnu fyrir fjárfestingafélag Kristins, en samt setið fundi vegna þess hjá Glitni. „Kristinn leitaði svolítið til mín á þessum árum.“ Nefndi hann að meðan samningaviðræður við Glitni stóð hafi meðal annars Lárus Welding, þáverandi bankastjóri, komið að málum, en neitaði því hins vegar að Hörður Felix Harðarson, fyrrverandi yfirlögfræðingur bankans og núverandi meðeigandi Ragnars á Mörkinni lögmannsstofu, hafi komið að viðræðunum fyrr en þær voru að fullu klárar og þá hafi hann kvittað undir.

Fleiri skýrslur voru teknar áður en fyrri degi aðalmeðferðar lauk, en Emilía og Sjöfn, tvær systranna, mættu þó ekki þar sem þeim hafði aðeins verið birt krafa um að mæta sem vitni á mánudaginn og ekki voru liðnir þrír sólarhringar frá birtingu líkt og lög kveða á um. Málflutningur lögmanna fer svo fram í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert