„Það hefur aldrei staðið til að leggja niður starfsemi dagsetursins Vinjar og unglingasmiðjanna Stígs og Traðar, án þess að tryggð sé önnur útfærsla á þeirri þjónustu,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Velferðarráðs borgarinnar.
Hún segir að þetta hafi líklega verið óheppilega orðað sem hafi ollið þessum misskilningi hjá Landsamtökunum Geðhjálp. Hún segir að það verði sannanlega unnið að þessu máli í samráði við notendur, fagfólk og hagaðila eins og Geðhjálp.
Hagræðinga- og umbótatillögur borgarstjórnar sem samþykktar voru í borgarstjórn á þriðjudaginn innihalda texta um breytingar á Vin, Stíg og Tröð en það séu tillögur sem eiga eftir að fara í frekari úrvinnslu hjá velferðarráði. Útfærslan verður síðan gerð í samráði við hagaðila og meðal annars skoðað hvort hægt sé að auka þjónustuna og sameina hugsanlega annarri þjónustu. Það sé hins vegar útfærsluatriði sem verður unnið í samráði við fagfólk og hagaðila segir hún.
Heiða Björg segir að borgin leggi áherslu á að skerða ekki lífsgæði þessa viðkvæma hóps sem sækir Vin og þeirra unglinga sem njóta þjónustu smiðjanna.