„Jólin 2022 eru andstæðan við brandajól. Almennir launþegar fá aðeins einn lögbundinn frídag alla jólahátíðina. Þar að auki ber gamlársdag upp á laugardag og nýársdag upp á sunnudag,“ segir Björn Leví Gunnarsson.
Hann er flutningsmaður nýs frumvarps Pírata, um að ef lögbundna frídaga beri upp um helgar færist frídagurinn á næsta virkan dag. Björn Leví segir mikilvægt að launþegar fá á hátíðarstundum eins og jólunum nægan frítíma til að verja með fjölskyldu og vinum.
Í fréttatilkynningu frá Pírötum er einnig haft eftir Birni Leví að trygging ákveðins fjölda lögbundinna frídaga óháð ártali yrði mikil lífsgæðaaukning, ekki síst í svartasta skammdeginu þegar fólki veitir ekki af upplyftingu.
Þá er einnig bent á að rannsóknir hafi sýnt að stytting vinnuvikunnar hafi gefist vel og ánægja og starfsfólks og afköst hafi aukist í kjölfarið.
Samkvæmt lögum um frídaga eru lögbundnir frídagar helgidagar þjóðkirkjunnar, sumardagurinn fyrsti, 1. maí, 17. júní, frídagur verslunarmanna og enn fremur aðfangadagur jóla og gamlársdagur frá klukkan 13.