50 þúsund stríðsglæpamál skráð

Frá pallborðsumræðum í Grósku í dag. Auðunn Atlason, alþjóðafulltrúi forsætisráðuneytisins, …
Frá pallborðsumræðum í Grósku í dag. Auðunn Atlason, alþjóðafulltrúi forsætisráðuneytisins, Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands, Þórdís og Borys Tarasyuk fyrrverandi utanríkisráðherra Úkraínu. mbl.is/Árni Sæberg

Þegar ríki ræðst inn í nágrannaríki, líkt og Rússar gerðu í Úkraínu, með skelfilegum afleiðingum fyrir almenna borgara þá velta margir fyrir sér hvort raunhæft sé að menn verði sóttir til saka. Til dæmis fyrir stríðsglæpi þegar það á við.

Þórdís Ingadóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, tók þátt í pallborðsumræðum í Grósku í dag þar sem þessi mál voru til umræðu og mbl.is ræddi við hana í framhaldinu.

„Lögin eru bara mjög skýr. Annars vegar varðandi ábyrgð ríkja og hins vegar varðandi ábyrgð einstaklinga. Á síðustu þrjátíu árum hefur gerst svo mikið í þessu til dæmis fyrir Alþjóða dómstólnum í Haag um ábyrgð ríkja. Nýlega féll dómur þar vegna ábyrgðar Úganda um að greiða Kongó 300 milljónir dollara í stríðsskaðabætur vegna átaka,“ segir Þórdís.

Fjöldagrafir, sem uppgötvuðust við bæinn Isíum í Karkív-héraði í september …
Fjöldagrafir, sem uppgötvuðust við bæinn Isíum í Karkív-héraði í september síðastliðnum. AFP/Yasuyoshi Chiba




„Fjöldinn allur af sakadómstólum hafa orðið til í sambandi við ábyrgð einstaklinga. Þar gerðist ekkert í langan tíma eftir Nürnberg- og Tókýó-réttarhöldin eða þar til Júgóslavíudómstóllinn kom árið 1993. Síðan þá hafa verið margir slíkir dómstólar fyrir utan stofnun Alþjóðlega sakadómstólsins sem á að vera varanlegur. Hann er með fullu lögsögu varðandi stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni sem eru framdir í Úkraínu.  Hinsvegar hefur hann ekki lögsögu til að ákæra einstaklinga fyrir árásina sem slíka og í ljósi þessa er Úkranía að óska eftir sérdómstól til að fjalla um þann glæp.

Þunginn af málunum lendir á úkraínskum stjórnvöldum en Alþjóða sakadómstóllinn mun aldrei taka meira en örfáa einstaklinga. Þunginn lendir því á Úkraínu og ríki hafa verið að gera þetta. Fordæmin eru fyrir hendi,“ segir Þórdís og bætir því við að á okkar tímum séu miklar upplýsingar til um að það sem gengur á í stríðsátökum.

Tíu mál verið höfðuð gegn Rússum

„Við stöndum betur hvað það varðar. Sjaldan hefur stríð eða brot verið jafn vel skráð og núna. Saksóknari í Úkraínu hefur upplýst um að 50 þúsund atvik hafi verið skráð á fyrstu átta mánuðum stríðsins þar sem grunur er um stríðsglæpi. Saksóknarinn er með tugi aðstoðarmenn frá Alþjóða sakadómstólnum til að aðstoða við að reka málin í landsréttum. Einnig eru margir sérfræðingar frá öðrum löndum að hjálpa til í landsréttum við að varðveita sönnunargögn og hjálpa til á ýmsan hátt. Til dæmis frá löndum eins og Kanada og Frakklandi. 

Þá er búið að setja á stofn rannsóknarnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna til að skoða tiltekin atvik. Miðað við ýmis fyrri dæmi þá hefur þetta gerst mjög hratt í kringum stríðið í Úkraínu. Mikilvægast þá er kerfið hjá þeim að virka þrátt fyrir átökin, dómar eru þegar fallnir þar í landi er varða stríðsglæpi."

Ýmis málarekstur gegn Rússlandi er þegar hafinn. „Nú þegar er komið milliríkjamál hjá Alþjóða dómstólnum í Haag á milli Úkraínu og Rússlands. Tíu mál hafa verið höfðuð gegn rússneska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Þessi mál eru í farvegi og fjöldinn allur af ríkjum hefur óskað eftir að taka þátt í þessum málaferlunum sem þriðji aðili.  En það mun taka mörg ár að fá niðurstöðu í þeim.  Til viðbótar framangreindum ferlum, er nýleg ályktun Allsherjarþingsins varðandi það að huga að skaðabótamálum. Slíkar stofnanir hafa verið settar á fót áður og fordæmin fyrir hendi."

Stórt vandamál hjá Alþjóða sakadómstólnum

Þórdís minnir á að mál sem þessi taki tíma og þegar kemur að því að sækja einstaklinga til ábyrgðar þá sér erfitt að spá fyrir um slíkt.

„Við þurfum að vera raunsæ því þetta mun taka tíma. Ratko Mladic var í sautján ár á flótta áður en hann var handsamaður og Radovan Karadzic í ellefu ár. Varðandi ákveðna einstaklinga í stríðinu í Úkraínu þá sér maður ekki fram á að þeir verði handteknir á næstunni þótt fram komi ákærur. Alþjóða sakadómstóllinn hefur alveg lögsögu til að ákæra en hann mun eingöngu ákæra þá sem eru hæst settir. við eigum eftir að bíða í mörg ár eftir handtökum,“ segir Þórdís og vandinn við að taka menn höndum vegna gruns um stríðsglæpi er ekki nýr af nálinni.

„Þetta er bara stórt vandamál hjá Alþjóða sakadómstólnum. Ég held að í dag séu fjórtán manns sem ekki hefur tekist að handtaka og eru sumar handtökuskipanirnar fimmtán ára gamlar. Omar al Bashir, fyrrverandi forseti Súdan, hefur enn ekki verið handtekinn sem dæmi. Þetta grefur undan trausti á kerfinu",“ segir Þórdís Ingadóttir í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert