Ákærðir fyrir tilraun til hryðjuverka

Annar mannanna leiddur út úr Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Annar mannanna leiddur út úr Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á áframhaldandi fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir mönnunum tveimur sem eru grunaðir um skipulagningu hryðjuverka hér á landi.

Ákæra yfir mönnunum fylgdi gæsluvarðhaldskröfu héraðssaksóknara. Þar er annar mannanna ákærður fyrir tilraun til hryðjuverka og stórfelld brot gegn vopnalöggjöfinni. Hinn er ákærður fyrir hlutdeild í tilraun til hryðjuverka og stórfelld brot gegn vopnalöggjöf. Voru þeir ákærðir fyrir brot á 100. grein a í hegningarlögunum.

„Nú fer þetta í sinn formlega feril innan kerfisins,“ segir Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara. Fyrst verður málinu úthlutað dómara, sem ákveður síðan þingfestingardag.

Verði mennirnir fundnir sekir eiga þeir yfir höfði sér allt að ævilangt fangelsi. 

100. grein a:

„Fyrir hryðjuverk skal refsa með allt að ævilöngu fangelsi hverjum sem fremur eitt eða fleiri af eftirtöldum brotum í þeim tilgangi að valda almenningi verulegum ótta eða þvinga með ólögmætum hætti íslensk eða erlend stjórnvöld eða alþjóðastofnun til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert eða í því skyni að veikja eða skaða stjórnskipun eða stjórnmálalegar, efnahagslegar eða þjóðfélagslegar undirstöður ríkis eða alþjóðastofnunar:] 1)

  1. manndráp skv. 211. gr.,
  2. líkamsárás skv. 218. gr.,
  3. frelsissviptingu skv. 226. gr.,
  4. raskar umferðaröryggi skv. 1. mgr. 168. gr., truflar rekstur almennra samgöngutækja o.fl. skv. 1. mgr. 176. gr. eða veldur stórfelldum eignaspjöllum skv. 2. mgr. 257. gr. og þessi brot eru framin á þann hátt að mannslífum sé stefnt í hættu eða valdið miklu fjárhagslegu tjóni,
  5. flugrán skv. 2. mgr. 165. gr. eða veitist að mönnum sem staddir eru í flughöfn ætlaðri alþjóðlegri flugumferð skv. 3. mgr. 165. gr.,
  6. brennu skv. 2. mgr. 164. gr., veldur sprengingu, útbreiðslu skaðlegra lofttegunda, vatnsflóði, skipreika, járnbrautar-, bifreiðar- eða loftfarsslysi eða óförum annarra slíkra farar- eða flutningatækja skv. 1. mgr. 165. gr., veldur almennum skorti á drykkjarvatni eða setur skaðleg efni í vatnsból eða vatnsleiðslur skv. 1. mgr. 170. gr. eða lætur eitruð eða önnur hættuleg efni í muni, sem ætlaðir eru til sölu eða almennrar notkunar, skv. 1. mgr. 171. gr.

 Sömu refsingu skal sá sæta sem í sama tilgangi hótar að fremja þau brot sem talin eru í 1. mgr.] 2)

    1)L. 149/2009, 4. gr. 2)L. 99/2002, 2. gr.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert