Áttu ekki von á lokuninni

Reykjavíkurborg tók við Vin fyrir um ári síðan.
Reykjavíkurborg tók við Vin fyrir um ári síðan.

Forstöðukona Vinjar, Halldóra Pálsdóttir, segist ekki hafa átt von á því að setrinu yrði lokað, þar sem borgin er nýtekin við rekstri þess. Lokunin er liður í hagræðingartillögum Reykjavíkurborgar.

Tók borgin yfir reksturinn fyrir ári síðan, eftir að Rauði krossinn vann úttekt sem sýndi að hópurinn sem sækir Vin sé sá jaðarsettasti, en þangað leitar fólk með geðraskanir. 

Veltir fyrir sér hvort upplýsingaflæði hafi skort

„Það var gert ítarleg úttekt og faglegt mat unnið, af breiðum hópi fagfólks, forstöðumanna og Reykjavíkurborgar, fólki úr búsetunni og öðrum úrræðum fyrir fólk í geðrænum vanda,“ segir Halldóra. Veltir hún því fyrir sér hvort um stíflur í upplýsingaflæði hafi verið að ræða.

„Það eru of miklir fordómar í samfélaginu til þess að þau geti nýtt sér venjubundin úrræði. Eins kemur fram að þau þurfi öryggi og sérsniðna þjónustu,“ segir Halldóra. Gestirnir hafi komið að því að móta starfsemina og geti þar verið eins og þeir vilja vera. 

Upplýsa fólk, róa það og hughreysta

„Gestirnir eru búnir að hafa samband símleiðis og mæta hingað. Við höfum átt í nógu að snúast. Upplýsa fólk, róa það og hughreysta,“ segir Halldóra, enda hafi fáir búist við lokuninni. 

Starfsemi Vinjar kostar borgina undir 50 milljónir á ári, fjögur stöðugildi en engir sjálfboðaliðar. Um 70 manns heimsækja setrið reglulega. 

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, segir að aldrei hafi staðið til að leggja niður starfsemi Vinjar og unglingasmiðjanna Stígs og Traðar, án þess að tryggð sé önnur útfærsla á þeirri þjónustu. Þó hefur ekki komið fram hvað skuli leysa úrræðin af hólmi.

Rauði krossinn hefur rekið Vin í nær 30 ár og er helsta hlutverk þess að draga úr félagslegri einangrun og skapa vinalegt umhverfi fyrir gesti setursins.

Halldóra Pálsdóttir, forstöðukona Vinjar.
Halldóra Pálsdóttir, forstöðukona Vinjar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka