Efling telur nýjan kjarasamning „ófullnægjandi“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórn Eflingar telur kjarasamning Starfgreinasambands Íslands (SGS) vera ófullnægjandi fyrir verkafólk á höfuðborgarsvæðinu og á suðvesturhorninu.

Í tilkynningu kemur fram að stjórn Eflingar hafi samþykkt ályktun þess efnis í dag.

Þar segir að í samningnum sé kaupmáttarrýrnun ársins 2022 óbætt. Hann muni auk þess ekki skila sambærilegri kaupmáttaraukningu á næsta ári og Lífskjarasamningurinn gerði.

Bent er á að hagvöxtur hafi verið 2,4% við undirritun lífskjarasamningsins árið 2019 en sé nú nálægt 7%.

„Miklu meira er því til skiptanna nú. Launafólk á að fá sinn hlut af þessum mikla hagvexti,“ segir í tilkynningunni.

Samningur ásættanlegri fyrir fiskvinnslufólk

Fullyrt er í ályktun Eflingar að kauphækkun í SGS-samningnum sé mest hjá þeim hópum verkafólks sem hefur lengstan starfsaldur hjá sama fyrirtæki. Eflingarfélagar séu almennt með styttri starfsaldur hjá sama fyrirtæki og fái því minna út úr launatöflu SGS en verkafólk á landsbyggðinni.

Svo virðist að samningurinn sé ásættanlegri fyrir fiskvinnslufólk en aðra, en sá hópur er að mestu leyti á landsbyggðinni.

Þá er tekið fram að framfærslukostnaður sé mun meiri á höfuðborgarsvæðinu, einkum húsnæðiskostnaður.

„Nýr kjarasamningur fyrir Eflingarfélaga þarf að taka tillit til þessara atriða,“ segir að lokum í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert