Anna Karen Sigurðardóttir, sem tók þátt í gerð klámmyndbands sem tekið var upp í sjúkrabíl í húsnæði slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu við Skógarhlíð, segist hafa gert sitt besta til að láta myndbandið hverfa.
Fjölmargir hafi gert tilraunir til að finna það og fyrir vikið hafi hún og aðrir efnishöfundar orðið fyrir miklu áreiti. Hún biðlar til fólks að hætta og biður þá sem nú þegar hafi orðið sér út um myndbandið að deila því ekki áfram. Sjálf muni hún ekki deila því.
Anna Karen tjáir sig um málið á Instagram-síðu sinni, en hún steig þar fram í gær til koma á framfæri gagnrýni á umfjöllun fjölmiðla um myndbandið. Ákveðnir fjölmiðlar hafi tekið saman og birt persónugreinanlegar upplýsingar um báða aðila sem tóku þátt í gerð myndbandsins sem hafi dugað til að hægt væri að bera kennsl á þau. í kjölfarið hafi áreitið hafist.
Hún segist sár yfir því að hafa verið ýtt fram í sviðsljósið og að vera máluð upp sem „vitleysingur og vændiskona“.
Eftir fjölmiðlar greindu frá því að klámmyndband sem tekið væri upp í íslenskum sjúkrabíl, væri í umferð, var málið tekið til skoðunar hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. Í ljós kom að starfsmaður slökkviliðsins var annar þeirra sem bar ábyrgð á myndbandinu og var honum sagt upp störfum í kjölfarið.
Anna Karen vonast þó til slökkviliðið endurskoði uppsögnina.
„Mér dettur ekki í hug að draga úr alvarleika málsins er varðar sjúkrabílinn og vildi óska af öllu hjarta að ég gæti dregið það til baka. Ég tek ábyrgð á eigin gjörðum og þykir þetta leitt. Þetta hefði aldrei átt að eiga sér stað og ég vona að slökkviliðið endurhugsi ákvörðun sína að segja honum upp,“ segir hún á Instagram.
Þá segir hún kynlífsverkafólk vera náið samfélag fólks sem búi yfir töluverðu magni af viðkvæmum upplýsingum um viðskiptavini sína, jafnvel háttsetta einstaklinga í ýmsum stöðum; þingmenn, blaðamenn og fréttamenn, eins og hún telur upp.
Segir hún þessa einstaklinga mega prísa sig sæla yfir því að upplýsingar um þá verði ekki gerðar opinberar. Þá vill hún meina að ef hún hefði setið fundi hjá slökkviliðinu þar sem málið var rætt, þá hefðu fleiri misst starfið innan slökkviliðsins.
Eftir að fjölmiðlar birtu fréttir af því að Anna Karen varaði við frekari umfjöllun um myndbandið eða hótaði fjölmiðlum, birti hún færslu þar sem hún sagðist aldrei hafa sagst ætla að leka upplýsingum. Hún hafi hins vegar sagst geta það.
Anna Karen biðst einnig afsökunar á myndbandinu og biður aðstandendur sína afsökunar á því að þeir hafi upplifað niðurlægingu í kjölfar hennar mistaka.
„Ég tek ábyrgð á eigin gjörðum og er svo sannarlega tilbúin að viðurkenna mín mistök. Ég vildi óska þess að ég, ásamt þeim sem komu að umfjöllun málsins, hefðum farið öðruvísi að því og án þess að gera okkur öll að fíflum opinberlega.“
Þá gagnrýnir hún framkomu í garð kynlífsverkafólks og biðlar til fólks að kynna sér hlutina áður en það sest í dómarasæti.