Áætlað er að veita Kvikmyndasjóði 250 milljóna viðbótaframlag fyrir árið 2023, að því er fram kemur í tilkynningu frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu.
Þar segir að við 2. umræðu fjárlagafrumvarps megi vænta þess að lagt verði til að 100 milljónir króna verði lagðar til Kvikmyndasjóðs auk þess sem menningar- og viðskiptaráðuneytið muni leggja fram 150 milljón króna viðbótarframlag.
Gangi það eftir muni Kvikmyndasjóður því fá 1328,9 milljónir króna á árinu 2023 til að standa undir fjármögnun verkefna sem þegar hafa hlotið vilyrði eða sjóðurinn er skuldbundinn með samningi.
„Viðbótarframlagið á næsta ári kemur til móts við Kvikmyndasjóð vegna breytinga á fjármálaáætlun sumarið 2022. Samkvæmt áætluninni [...] féll tímabundið fjárfestingarátak vegna heimsfaraldursins sem sjóðurinn átti að fá árið 2023 niður, eða ári fyrr en gert var ráð fyrir,“ segir í tilkynningunni.