Hafdís Sigurðardóttir, hjólreiðakona ársins og Íslandsmeistari í götuhjólreiðum, hefur verið hjólandi nánast viðstöðulaust síðan klukkan 15.00 í gær. Samtals hefur Hafdís nú hjólað 572 kílómetra á 26 klukkutímum.
Ákvað hún að ögra sjálfri sér og hjóla 22 kílómetra á hverri klukkustund – afgangstíma af hverri klukkustund nýtir hún til þess að næra sig og hvíla, í húsnæði Bjargs líkamsræktar á Akureyri.
„Mér líður bara ótrúlega vel,“ sagði Hafdís þegar mbl.is náði tali af henni þegar hún hafði hjólað 550 kílómetra, í 25 klukkustundir. „Það gengur mjög vel að nærast á milli og hvíla sig. Ég er að halda svipuðum hraða alla 22 kílómetrana,“ segir hún. Klárar hún 22 kílómetrana almennt á 44 til 47 kílómetrum og fara þá 13 til 16 mínútur í hvíld.
„Ég náði að dotta svona tvisvar,“ segir Hafdís, spurð hvort hún hafi náð einhverjum svefni á milli lotanna.
Hefurðu sett þér markmið um hámarkslengd?
„Nei, ég ákvað frá upphafi að setja ekki neitt. Ég ætlaði bara að taka klukkustund fyrir klukkustund. Ég var hrædd um að ef maður myndi setja einhvern tíma þá myndi hausinn bara hætta þá. En á meðan ég er góð og næ að næra mig og svoleiðis, þá held ég mínu striki,“ segir Hafdís.
Viðburðinn ákvað hún að kalla Bakgarðshjól, eftir að hafa fylgst með Bakgarðshlaupinu í sumar. Fjölmargir hafa tekið þátt og hjólað við hlið Hafdísar, í líkamsræktinni Bjargi að Bugðusíðu 1 á Akureyri og þangað eru allir velkomnir. Fjölskylda Hafdísar og vinir hafa sett upp styrktarreikning vegna átaksins og keppnisferðalaga hennar, sem öllum er frjálst að leggja inn á. Reikningsnúmer: 0566-26-060320, kennitala: 240589-3899.