Ævintýra- og fjölskyldumyndin Jólamóðir ratar í kvikmyndahús þann 26. desember. Myndin fjallar um ævintýri Hurðaskellis, Skjóðu og allra hinna tröllanna í Grýluhelli og er stærstur hluti myndarinnar tekinn upp í raunverulegum hellum á Suðurlandi. Myndin er í huga Jakobs Hákonarsonar, leikstjóra myndarinnar, fyrir allan aldur.
„Í mínum huga er myndin alveg jafn mikið fyrir fullorðna eins og börn og í raun er þetta myndin sem ég vildi sjá upp úr handriti Önnu Bergljótar Thorarensen og ég var svo heppinn að fá að framkvæma þær hugmyndir mínar með lítið en frábært teymi á bak við mig," segir Jakob.
Jakob segist vonast til þess að myndin komi inn með trompi um jólin en þetta er frumraun hans á hvíta tjaldinu.
„Ég vonast til þess að myndin fái góðar viðtökur en þetta er mín fyrsta mynd í fullri lengd sem er mjög stórt augnablik fyrir mig. Það eru fáir 27 ára sem fá tækifæri og baklandið til þess að skapa og framkvæma skrímslið sem kvikmyndir eru,“ segir Jakob.
Teymið sem kom að gerð kvikmyndarinnar er ekki stórt miðað við hvað gengur og gerist í mörgum kvikmyndum.
„Myndin er sjálfsagt unnin hratt miðað við kvikmynd og var teymið frekar lítið en frábært. Lengd kredit listans er í raun besta dæmið um það hversu mikils virði hver og einn er í þessu verkefni. Það var sama hvaða rullu fólk hafði það þurftu allir að vera jafn metnaðarfullir,” segir Jakob.
Myndin var framleidd af Önnu Bergljótu Thorarensen, Jakobi Hákonarsyni, Andreu Ösp Karlsdóttur og Sigsteini Sigurbergssyni fyrir framleiðslufyrirtækið A Whole Lotta Love.
Leikarar: Andrea Ösp Karlsdóttir, Anna Bergljót Thorarensen, Gríma Kristjánsdóttir, Huld Óskarsdóttir, Sigsteinn Sigurbergsson og Stefán Benedikt Vilhelmsson