„Jólasalan hefur gengið alveg glimrandi vel,“ segir Sigvaldi Jóhannesson, betur þekktur sem Silli kokkur sem selur meðal annars villibráð fyrir hátíðarnar.
Silli og fjölskylda reka veisluþjónustu og matarvagn og eru komin fimm ár frá stofnun. Viðtökurnar hafa verið góðar frá og hefur eftirspurnin aukist með hverju árinu.
Matarvagn fjölskyldunnar hefur tekið þátt í keppninni um götubita ársins og unnið keppnina í öll þrjú skiptin sem hún hefur verið haldin.
„Við erum í þessu fjölskyldan ásamt því að vinir og ættingjar aðstoða okkur þegar þarf. Þetta er í raun komið í þá stærðargráðu sem við treystum okkur í,“ segir Silli.
Jólasalan er farin á fullt og fyrir jólin framleiða þau yfir 35 vöruliði. Hann segir að salan sé mikil á alls kyns kæfum, paté og bringum auk þess sem bókin Handbók veiðimannsins hafi verið ein vinsælasta varan í ár. Bókin inniheldur uppskriftir að sælkera íslenskri villibráð og meðlæti sem og fróðleik sem snýr að verkun og veiði.
Nóg er um að vera hjá Silla og þá sérstaklega í aðdraganda jóla og áramóta. Hann segir sölu á andabringum og heilum gæsum einna mest fyrir jólin spurður hvað fólk sé helst að kaupa í jólamatinn hjá honum.