Festust og biðu á bílþaki í tvo tíma

Algengt er að bifreiðar festist í Krossá, eins og gerðist …
Algengt er að bifreiðar festist í Krossá, eins og gerðist í dag. Ljósmynd/Þóra Björg Ragnarsdóttir

Tveir ferðamenn og einn leiðsögumaður fóru upp á þak bifreiðar sinnar og biðu björgunar í tvo tíma í um þriggja stiga frosti, eftir að bifreiðin festist í Krossá rétt hjá Þórsmörk, um eittleytið í dag. 

Voru björgunarsveitir á Hvolsvelli og Hellu kallaðar til, þ.e. Dagrenning á Hvolsvelli og Flugbjörgunarsveitin á Hellu, auk bifreiðar frá ferðaþjónustufyrirtæki leiðsögumannsins.

Farþegarnir höfðu ekki vöknað við að fara úr bílnum en var orðið nokkuð kalt þegar björgunarfólk bar að garði. Var þeim komið í land þegar búið var að tryggja aðstæður.

Bíllinn var í kjölfarið dreginn upp úr ánni, óskemmdur. Eftir að hafa náð í sig hlýju aftur inni í heitum bíl, hélt fólkið för sinni áfram með leiðsögumanninum um þrjúleytið í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert