„Í besta falli mikil afneitun“

mbl.is/Hari

Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir strætóappið Klapp virka vel í svari við fyrirspurn Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa.

Kvartanir strætófarþega vegna greiðslukerfisins hafa verið áberandi upp á síðkastið en kerfið var tekið í notkun í nóvember í fyrra og leysti þá eldra app hjá Strætó af hólmi.

Kjartan Magnússon lagði fyrirspurnir vegna Klapps fyrir borgarstjórn í sumar en fékk ekki svar fyrr en eftir fimm mánuði og hafði þá gengið frekar eftir svörum á ársfundi Strætó. 

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Sigurður Bogi

Mistök gerð með kaupum á kerfinu

„Frá því ég kom inn í borgarstjórn að nýju í vor ef ég reynt að fá svör við þessu, einfaldlega vegna þess að ég hef fengið margar kvartanir frá farþegum um Klapp-greiðslukerfið. Ég hef persónulega heyrt frá mörgum að þetta sé vandamál og frásagnir farþega um reynslu sína af kerfinu hafa komið ítrekað fram í fjölmiðlum.

Auk þess eru fjórar Facebooksíður þar sem fólk talar um reynslu sína af því að nota Strætó,“ segir Kjartan og á þar við Hollvinasamtök Strætó, Félag strætófarþega, Strætó lof og last og Samtök um bíllausan lífsstíl.

„Á þessum fjórum síðum kemur fram óánægja með Klapp-kerfið og þar eru margar kvartanir. Mér sýnist að mistök hafi verið gerð með kaupum á þessu kerfi og rekstri þess. Þess vegna lagði ég fram fyrirspurnir í borgarstjórn hinn 30. júní varðandi Klapp og það tók fimm mánuði að fá svar. Gerðist það eftir að ég tók málið upp á ársfundi Strætó í nóvember og gerði athugasemd við að ég hafi ekki fengið svör.“

Jóhannes Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó.
Jóhannes Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó. mbl.is/Kristinn Magnússon

Undrandi á svari framkvæmdastjórans

Kjartan spurði alls tólf spurninga en var undrandi á svarinu varðandi vandræðin með Klapp greiðslukerfið. 

„Kerfið hefur verið meira en ár í notkun og ég spurði hvort byrjunarörðugleikar varðandi greiðslukerfið hafi verið leystir. Framkvæmdastjórinn segir í sínu svari: 

„Byrjunarörðugleikar hafa verið leystir og virkar greiðslukerfið vel.“

Þetta finnst mér mjög merkilegt í ljósi þess hvernig umræðan er á Facebook-síðum, því þar eru ótrúlega frásagnir. Fólk er greinilega víða í vandræðum út af þessu og maður sér það einnig í fréttum hjá ykkur um helgina.

Þetta eru ekki einangruð tilvik. Svör framkvæmdastjórans benda til þess að hann sé ekki í miklu sambandi við strætófarþega. Þetta er í besta falli mikil afneitun að segja að byrjunarörðugleikar hafi verið leystir og greiðslukerfið virki vel,“ segir Kjartan. 

„Þá er skeytingarleysi borgarstjóra og fulltrúa Reykjavíkur í stjórn Strætó gagnvart þessu mikla vandamáli með miklum ólíkindum. Reykjavíkurborg fer með rúmlega 60% eignarhlut í Strætó. Borgarstjóri og stjórnarmaður Reykjavíkur bera því mikla ábyrgð á rekstri fyrirtækisins þar sem þeir fara með eigandafyrirsvar langstærsta eigandans,“ segir Kjartan Magnússon í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert