Tilfinningar Kollu selja bækur

Snæbjörn Arngrímsson hefur áhyggjur af bókalífi þjóðar.
Snæbjörn Arngrímsson hefur áhyggjur af bókalífi þjóðar. mbl.is/Árni Sæberg

Séð frá bæjardyrum Snæbjarnar Arngrímssonar, barnabóka- og spennusagnahöfundar, hefur íslenski bókamarkaðurinn verið við betri heilsu.

„Öll umgjörðin er öðruvísi og slappari en hún var. Í dag er til dæmis ætlast til þess að höfundar kynni sig sjálfir á samfélagsmiðlum. Það er ekki góð þróun. Bókagagnrýni má líka muna sinn fífil fegri.

Dagblöðin hafa ekki sömu vigt og áður og ekki virðist lengur skilyrði að gagnrýnendur þekki heimsbókmenntirnar og íslenska bókmenntasögu og geti sett ný verk í samhengi. Það sem helst selur bækur í dag eru tilfinningar sem Kolla [Kolbrún Bergþórsdóttir] sýnir í Kiljunni. Þegar maður les gamla bókagagnrýni þá skynjar maður fljótt kraftinn og valdið.“

Kolbrún Bergþórsdóttir bókmenntagagnrýnandi.
Kolbrún Bergþórsdóttir bókmenntagagnrýnandi. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Er þetta ekki áhyggjuefni?

„Jú, ef ég væri útgefandi á Íslandi í dag þá myndi ég gera eitthvað í þessu; finna leið til að efla umfjöllun og viðhalda þessu öfluga bókmenntalífi. Þetta segi ég ekki af eigingjörnum hvötum; ég hef bara svo ofboðslega gleði af bókmenntum og vil að sem flestir kynnist þeim. Ég hvet því hagsmunaaðila til að finna leiðir til að fjallað verði að nýju um íslenskar bókmenntir á vitrænan hátt.“

Snæbjörn seldi forlag sitt í Danmörku, Hr. Ferdinand, fyrir fimm árum og reiknar frekar með því að dagar hans sem forleggjara séu taldir. „Ég get ekki hugsað mér að fara aftur í forlagsbransann í Danmörku. Það væri þá frekar hérna; mér tekst betur að vera forleggjari á Íslandi enda leit ég alltaf frekar á þetta sem listform en bissness. Það að ég snúi aftur verður þó að teljast afar langsótt.“

Nú fæst hann við að skrifa bækur en fyrsta spennusaga hans, Eitt satt orð, kom út á dögunum. Nánar er rætt við Snæbjörn í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka