Voldugur en enginn heyrt hans getið

Halldór H. Jónsson arkitekt (1912-1992).​
Halldór H. Jónsson arkitekt (1912-1992).​

„Hann hefur unnið það einstaka afreksverk að vera einn voldugasti maður landsins í nær fjóra áratugi án þess að almenningur í landinu hafi heyrt hans getið.“

Þannig er Halldóri H. Jónssyni, arkitekt með meiru, lýst í bók Örnólfs Árnasonar Á slóð kolkrabbans frá árinu 1991. Vegna setu hans í fjölda stjórna stórra, íslenskra fyrirtækja var hann á tíðum nefndur stjórnarformaður Íslands. Halldór var stjórnarformaður Eimskipafélags Íslands frá árinu 1974 til dauðadags 1992.

Halldór mun ekki hafa tekið í mál að skrifuð yrði um hann ævisaga í lifanda lífi, enda ekki gefinn fyrir sviðsljósið, en nú er komin út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi bókin Halldór H. Jónsson arkitekt eftir Björn Jón Bragason og Pétur H. Ármannsson.

Hún er unnin í góðu samstarfi við afkomendur Halldórs en synir hans tveir studdu vel við verkið og veittu upplýsingar. Það kom í góðar þarfir enda er hægt að telja viðtöl við Halldór í fjölmiðlum á fingrum sér. „Hann sóttist ekki eftir athygli,“ segir Pétur H. Ármannsson. Bókina prýða fjölmargar ljósmyndir og teikningar.

Sjávarútvegshúsið við Skúlagötu er með þekktustu verkum Halldórs. ​
Sjávarútvegshúsið við Skúlagötu er með þekktustu verkum Halldórs. ​ Ljósmynd/Hermann Schlencker

Skipar verðugan sess

„Upphaflega átti bókin bara að vera um arkitektinn Halldór,“ segir Pétur, „en þar sem hann var líka mikill áhrifamaður í íslensku atvinnulífi var ákveðið að fá að verkinu mann með sérþekkingu á fjármálasögu og þess vegna skrifum við Björn Jón hvor sinn hluta bókarinnar.“

Pétur segir Halldór skipa verðugan sess meðal merkra frumherja nýrrar byggingarlistar á Íslandi á 20. öld. Halldór var fyrsti arkitektinn sem hóf störf hér á landi eftir að hafa lokið fullnaðarprófi í byggingarlist frá sænskum tækniskóla árið 1938. Kennari Halldórs í Stokkhólmi var hinn kunni arkitekt Gunnar Aspelund og segir Pétur hann hafa verið undir áhrifum frá læriföður sínum í eldri verkum.

„Framlag Halldórs er fyrst og fremst á sviði atvinnubygginga, þar sem hann var boðberi nýjunga. Þar fléttast saman bakgrunnur hans í viðskiptum og byggingarlist. Hann kom lítið að því að teikna opinberar byggingar ef frá eru taldar þrjár kirkjur hans. Eftir hann liggja líka nokkur glæsileg íbúðarhús frá árunum 1942 til 1960 en eftir það vann hann nær alfarið að hönnun atvinnubygginga.“

Grillið á Hótel Sögu. Halldór nostraði við hvert smáatriði.​
Grillið á Hótel Sögu. Halldór nostraði við hvert smáatriði.​

Nánar er fjallað um bókina í máli og myndum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert