Andlát: Magnús V. Pétursson kaupmaður og dómari

Magnús Vignir Pétursson, kaupmaður og knattspyrnudómari, lést síðastliðinn föstudag. Hann hefði orðið níræður á gamlársdag.

Magnús var fæddur í Reykjavík 31. desember 1932, sonur hjónanna Péturs J. Guðmundssonar, trillukarls í Skerjafirði, og konu hans, Sigurbjargar Jónu Magnúsdóttur, húsfreyju. Hann ólst upp í Skerjafirði.

Starfsferillinn hófst snemma því Magnús tók til starfa sem sendisveinn hjá Kaffi Höll átta ára gamall og varð síðan sendisveinn hjá Búnaðarbankanum. Hann var verslunarstjóri hjá KRON við Fálkagötu og síðar sölumaður hjá verksmiðju Magnúsar Víglundssonar. Árið 1965 stofnaði hann heildverslunina Hoffell og rak alla tíð og stofnaði með Valdimar syni sínum knattspyrnuverslunina Jóa Útherja í Ármúla árið 1999. Verslunin keypti síðar Hoffell og Magnús hætti kaupmennsku þegar Valdimar keypti hans hlut í Jóa Útherja fyrir um átta árum.

Magnús hóf ungur þátttöku í handknattleik og knattspyrnu með Fram og var síðar einn af stofnfélögum Þróttar 1949. Hann var einn af forvígismönnum skákæfinga hjá félaginu og um tíma formaður bridsdeildar. Hann var fljótlega farinn að þjálfa yngri flokka. Þá var hann formaður handknattleiksdeildar Þróttar í fjögur ár. Árið 1950 tók hann dómarapróf í knattspyrnu, varð landsdómari 1956 og alþjóðlegur FIFA-dómari 1965. Hann starfaði sem dómari í 30 ár og dæmdi víða um lönd. Magnús dæmdi einnig í handknattleik og var með alþjóðleg réttindi í þeirri grein.

Magnús hefur verið sæmdur gullmerki Þróttar, KSÍ, HSÍ, ÍBR og KRR fyrir störf sín. Hann var útnefndur heiðursfélagi Þróttar á síðasta ári. Hann var heiðursfélagi númer 1 í Liverpool-klúbbnum.

Eftirlifandi eiginkona Magnúsar er Eyþóra Valdimarsdóttir íþróttakennari. Börn þeirra eru Kristín, Jóhanna Björg og Valdimar Pétur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert