Biður þingmenn um að fresta lagabreytingum

Bandalagið hefur birt opið bréf til þingmanna.
Bandalagið hefur birt opið bréf til þingmanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra (B.Í.L.S) hefur beðið þingmenn um að fresta lagabreytingum um leigubifreiðaakstur þangað til útséð er með reynslu Norðmanna af afregluvæðingu sem tók í gildi fyrir tveimur árum og hvaða lagfæringar þeir ætla að gera á löggjöfinni þar í landi.

„Afregluvæðing leigubifreiðaaksturs tók gildi í Finnlandi árið 2018 og 2020 í Noregi.  Bæði ríkin vinna nú að endurbótum á lögunum vegna þess hversu hörmulega hefur til tekist. Ekki er fyrirséð hvenær þeirri vinnu muni ljúka,“ segir í opnu bréfi bandalagsins til þingmanna.

Þar kemur fram að stétt leigubílstjóra hafi lagt fram umsagnir sínar um frumvarp um leigubifreiðaakstur og bent á afleiðingar sambærilegra lagabreytinga í öðrum löndum. Þar segir að á hinum Norðurlöndunum hafi þjónusta skerst til mikilla muna vegna afregluvæðingar leigubifreiðaakstur, þvert á það sem haldið var fram.

Endurtökum ekki mistök Norðmanna

„Íslenska ríkið hefur sömu stöðu og hið norska gagnvart samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og ætti íslenska ríkið því að taka mið af þeirri útkomu sem þar mun líta dagsins ljós. Mikilvægt er að við endurtökum ekki mistök frænda okkar í Noregi,“ segir í bréfinu, þar sem kvartað er yfir því að við gerð frumvarpsins hafi ekki verið haft samráð við stétt leigubílstjóra.

„Verst þykir starfandi stétt að lagaleg aðkoma stéttarfélags að kjörum leigubifreiðastjóra, skuli vera þurrkuð út úr lögunum. Lítur Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra svo á að beinlínis hafi verið brotið á leigubifreiðastjórum við undirbúning þessa frumvarps með því að í engu hefur verið gætt samráðs við stéttarfélög þeirra.“

Fram kemur jafnframt að afleiðingar afregluvæðingar í Finnlandi, Svíþjóð og Noregi séu: „hröð fjölgun í stéttinni, undanskot frá skatti, stór hluti tekna greinarinnar flyst úr landi, óöryggi viðskiptavina, ójöfn dreifing þjónustunnar, hækkandi verð umfram verðbólgu og ólögmæt samkeppni. Þá lifa leigubifreiðastjórar ekki af starfi sínu og því er þjónustunni sinnt með félagslegum undirboðum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert