Breiðari samstaða hefði skilað betri samningi

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, telur að niðurstaðan hafi ekki …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, telur að niðurstaðan hafi ekki getað orðið betri miðað við aðstæður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að ekki hafi verið hægt að komast lengra í samningaviðræðum félagsins, Landsambands verslunarmanna og samflots iðn- og tæknigreina við Samtök atvinnulífsins. Hann taldi þó rétt að skrifa undir samninginn í ljósi stöðunnar.

„Miðað við aðstæður þá varð niðurstaðan eins góð og hún gat orðið,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is. 

Samflot með iðn- og tæknigreinum hafi skilað betri samningum en ella hefðu náðst. „Það skilaði betri niðurstöðu, það er algjörlega á hreinu. Síðan er það okkar fólks að meta hvort sú niðurstaða er ásættanleg eða ekki.“

Breiðari samstaða innan verkalýðshreyfingarinnar hefði þó skilað betri niðurstöðum, að mati Ragnars.

Fólk fullfært um að meta samninginn sjálft

Ragnar telur félagsfólk fullfært um að meta samninginn sjálft og hvað það þýðir ef hann verður felldur, og hyggst því hvorki mæla með samninginum né gegn honum.

Hann segist þó frekar eiga von á því samningurinn verði samþykktur af félagsfólki. Um sé að ræða skammtímasamning og fljótlega verði farið í áframhaldandi viðræður um lengri samning.

„Það er mat okkar sem vorum í þessari vinnu að lengra verður ekki gengið og þar við situr. Ég held að það hafi verið rétt að skrifa undir samninginn við þessar aðstæður og setja hann dóm félagsfólks. Ég held að fólk sé fullfært um að meta stöðuna sem við erum í og það sem er á borðinu. Ég held að fólk treysti því að við höfum náð eins langt og hægt var við þessar aðstæður.“

Ragnar vildi ekki vera með á mynd með formönnum og …
Ragnar vildi ekki vera með á mynd með formönnum og fulltrúum SA. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vildi ekki vera á mynd með fulltrúum SA

Ragnar virtist þó ekki sáttur eftir samningar náðust í gær og vildi ekki láta mynda sig með hópnum. Spurður út í það, segir hann:

„Ég hafði einfaldlega ekki geð í mér að sitja fyrir á mynd með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins.“

Af hverju ekki?

„Bara í ljósi aðstæðna. Þeir komu inn í þessar viðræður af mikilli hörku. Sérstaklega í ljósi þess hvernig staðan er í atvinnulífinu. Bæði fjármálakerfið og atvinnulífið er að sigla í gegnum fordæmalaust góðæri. Það er alveg ljóst og allar tölur staðfesta að fyrirtækin, atvinnulífið og fjármálakerfið hafa ekki sýnt vott af samfélagsábyrgð í gegnum mjög erfiða stöðu sem okkar samfélag er að ganga í gegnum með 6 prósenta stýrivöxtum og 9,4 prósenta verðbólgu,“ segir Ragnar.

„Gagnvart vinnandi fólki og samfélaginu, þá gef ég Samtökum atvinnulífsins algjöra falleinkunn,“ bætir hann við.

Gagnrýni Sólveigar á rétt á sér

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur gagnrýnt nýja samninginn og sagt að með því að fallast strax á skammtímasamninga hafi tækifæri til að byggja upp raunverulega samstöðu glatast.

Ragnar segist skilja gagnrýni Sólveigar vel og að hún eigi vel rétt á sér.

Sjálfur telur hann að breið samstaða innan verkalýðshreyfingarinnar hefði skilað betri niðurstöðu.

„En úr þeirri stöðu sem við vorum í þar sem búið var að leggja línurnar þá vorum við í þröngri stöðu. Núna rétt fyrir jól þá var búið að skrifa undir samning. Án þess að ég tjái mig sérstaklega um innihald þess samning þá held ég að enginn geti mótmælt því að breiðari samstaða innan hreyfingarinnar hefði skilað okkur betri niðurstöðu.“

Vill að SA geri Eflingu ómótstæðilegt tilboð 

Hann samninginn augljóslega skila fólki kjarabótum en það dugi ekki endilega til miðað við stöðu sumra fjölskyldna. „Ber þar að nefna stöðu þeirra sem náðu ekki að festa vexti á húsnæðislánum sínum og eru á leigumarkaði, þá dugar þetta engan veginn til,“ segir Ragnar.

Eftir standi að verkalýðshreyfingin þurfi að líta inn á við og vinna úr stöðunni eins og kostur sé.

„Að sama skapi þá vil ég skora á Samtök atvinnulífsins að boða samninganefnd Eflingar á fund og gera þeim tilboð sem þau geta ekki hafnað,“ segir Ragnar. Um sé að ræða viðkvæmustu hópana í samfélaginu sem þurfi mest á kjarabótum að halda.

„Ég geri ekki þá kröfu að 26 þúsund félagsmönnum Eflingar sé haldið í spennitreyju út af samningi sem við gerum. Ég held að Samtök atvinnulífsins eigi að sjá sóma sinn í því, miðað við hvernig bullandi góðæri er í atvinnulífinu, að ganga frá myndarlegum samningum við þá sem eftir eru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert