„Ég tel að þarna hafi menn samið af sér“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, trúir á þann baráttustyrk sem …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, trúir á þann baráttustyrk sem hún segir búa í Eflingarfélögum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég tel að þarna hafi menn samið af sér, það er enginn sigur að semja um 6,5 prósent þegar verðbólgan er yfir níu prósent,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður verkalýðsfélagsins Eflingar, í samtali við mbl.is um samninga Samtaka atvinnulífsins og viðsemjenda þeirra sem undirritaðir voru í gær.

Segir hún enn fremur að henni líki ekki þau vinnubrögð að sjá samið um hækkanir sem hvort eð er hefðu komið til útgreiðslu 1. maí. „Svo finnst mér líka undarlegt að sjá þetta kallað framhald af lífskjarasamningnum sem var krónutölusamningur eins og öllum er kunnugt um, í þeim samningi sem undirritaður var í gær var samið um prósentuhækkun þannig að þeir sem hærri hafa launin fá meira,“ segir Sólveig Anna.

Heimili láglaunafólks rekin með halla

Eins telur hún kaupmáttaraukningu rýra í nýgerðum samningum. „Hún er kannski 0,5 prósent ef hún verður einhver, það er líka mjög ólíkt lífskjarasamningnum þar sem kaupmáttur verka- og láglaunafólks jókst um fjögur prósent á ári þar til verðbólgan fór að éta af honum núna síðasta sumar,“ segir Sólveig Anna.

Hvers væntir hún þá af samningum Eflingar?

„Við féllumst á að gera skammtímasamning þar sem augljóst var að allir stefndu þangað og við samþykktum það svo verka- og láglaunafólk gæti lifað við einhvern efnahagslegan stöðugleika,“ segir Sólveig Anna. Í upprunalegri kröfugerð hafi Efling hins vegar haldið sig við þær launakröfur sem lagt var upp með í byrjun fyrir fyrsta árið, 56.700 króna hækkun auk framfærsluuppbótar.

„Heimili láglaunafólks eru rekin með halla og við viljum byrja á að vinna bug á þeirri samfélagslegu skömm,“ segir Sólveig Anna enn fremur. Hún segir Eflingu hafa unnið sigra síðustu ár og ætla að halda þeim áfram.

65% kvenna búi við fjárhagsáhyggjur

„Við trúum á getu okkar til að landa góðum kjarasamningi, við höfum gert það áður, við erum óhrædd við það sem fram undan er, við trúum á samstöðuna og þau tól sem við búum að. Við getum ekki fallist á það að íslensk auðstétt taki allt til sín í blússandi góðæri og munum berjast gegn því, við erum í góðu sambandi við okkar fólk og eigum okkur öfluga samninganefnd,“ segir formaðurinn.

Hún bendir á að samkvæmt kjarakönnun Eflingar lifi stór hópur félagsfólks við viðvarandi fjárhagsáhyggjur. Í könnuninni hafi 65 prósent Eflingarkvenna sagst búa við slíkar áhyggjur. „Fimmtíu prósent Eflingarfélaga eru á leigumarkaði, árið 2009 voru 63,5 prósent Eflingarfélaga í eigin húsnæði, nú eru það 38 prósent, þetta er fólkið sem er ómissandi í allri verðmætasköpun höfuðborgarsvæðisins, fólkið sem treystir á að félagið þess landi góðum samningi,“ heldur Sólveig Anna áfram.

Er hún bjartsýn á að það gerist?

„Já, ég er ávallt jákvæð og bjartsýn vegna þess að ég þekki þann baráttustyrk sem býr í félagsfólki Eflingar, ég hef séð hann skila árangri þannig að ég er sannarlega sannfærð um að það mun gerast. Okkar raddir eiga helst ekki að heyrast en við ætlum að láta þær heyrast,“ segir formaðurinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert