Grunuðu í hryðjuverkamálinu lausir

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður.
Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður. Ljósmynd/Aðsend

„Þeir eru lausir. Kveðinn var upp úrskurður um það í Landsrétti rétt í þessu,“ segir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður annars þeirra sem grunaðir eru um að skipuleggja hryðjuverk hér á landi.

Mennirnir tveir hafa sætt gæsluvarðhaldi frá 21. september vegna gruns um skipulag hryðjuverka og vopnalagabrot, þar af lengst í einangrun.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá því 9. desember, þar sem áframhaldandi gæsluvarðhald yfir mönnunum var staðfest, var kærður til Landsréttar og fellur úr gildi í dag. 

Endanlegt geðmat gerði útslagið

Sveinn Andri segir forsendurnar vera þær að fyrir liggur geðmat dómskvadds matsmanns að sakborningar í málinu væru engum hættulegir, hvorki sjálfum né öðrum. 

„En það mat sem við höfum verið að vísa til var bráðabirgða. Svo lá fyrir endanlegt mat í dag, sem að Landsréttur fékk og það var sama niðurstaða,“ segir Sveinn Andri. 

Áður hafði héraðsdómur sagt og Landsréttur staðfest að byggja mætti á hættumati lögreglunnar, sem byggir á öðrum forsendum en geðmatið. 

„Landsréttur hefur hingað til staðfest þessa úrskurði en núna tóku þeir U-beygju og samþykktu að með þetta geðmat í höndunum væru ekki forsendur til að halda þeim lengur inni á grundvelli d-liðar  fyrstu málgreinar 95. greinar [laga um meðferð sakamála], sem fjallar um að það sé hægt að halda mönnum inni sem teljast hættulegir.“

Sveinn Andri segir eðli málsins í raun breytt með því að mennirnir sitji ekki lengur í gæsluvarðhaldi. „Málið fer nú ekki sama hraða farveg og það hefði annars farið.“

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert