Anton Guðjónsson
Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, segir úrskurð Landsréttar um að láta hina grunuðu í hryðjuverkamálinu lausa ekki hafa áhrif á mál héraðssaksóknara gegn þeim.
Mennirnir tveir hafa sætt gæsluvarðhaldi frá því í september vegna gruns um skipulag hryðjuverka og vopnalagabrot og áttu að vera áfram í gæsluvarðhaldi til 6. janúar.
Er málið talið eitthvað minna en talið var í upphafi?
„Nei þetta hefur engin áhrif á málið, algjörlega ótengt því,“ segir Karl Ingi í samtali við mbl.is.
Karl Ingi bendir á úrskurð Landsréttar spurður hvernig menn geta verið látnir lausir sem úrskurðaðir hafa verið í gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna og svo vegna almannahagsmuna og ákærðir fyrir tilraun til hryðjuverka fyrir alvarleg vopnalagabrot.
„Þessi úrskurður Landsréttar verður birtur. Hann talar sínu máli.“
Þú hefur enga skoðun á þessu?
„Ég hef skoðun á þessu en ég ætla ekkert að láta hana í ljós,“ segir Karl Ingi.