Líkur eru á að lægð muni myndast, nánast yfir Íslandi, í kjölfar þess að ríkjandi kuldakast nær hámarki á föstudag.
Greint er frá þessu á veðurvefnum Bliku, sem Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur heldur úti.
Lægð þessi „hefur alla burði til að dýpka og skófla yfir okkur snjó“, fullyrðir hann.
Tekið er þó fram að átökin svokölluðu í háloftunum verði svo að segja ofan í landsteinunum, og óvissan því mikil um hverju skuli spá.
„Í raun eru flestar spár enn einhvers konar tilgátur um framhaldið,“ segir Einar og bendir á að vel sé þekkt, að með miklum háþrýstisvæðum við landið geti veður breyst mjög snögglega, frá því að vera stöðugt yfir í að verða óstöðugt.
„Gerist nánast eins og hendi sé veifað.“