Mögulega næmari fyrir inflúensu en áður

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir mikið um af veirum og öndunarfærasýkingum.
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir mikið um af veirum og öndunarfærasýkingum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kenningar eru um að þjóðfélagið sem heild sé næmara fyrir inflúensu en áður því engin inflúensa var fyrir tveimur árum og lítið um smit í fyrra. Nú stefnir í fyrsta vetur án samkomutakmarkana síðan árið 2020. Sóttvarnalæknir mælir með bólusetningu fyrir jólaboðin.

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir að inflúensan sé fyrr á ferðinni en venjulega.

„Það hafa verið fleiri greiningar á þessum tíma heldur en í venjulegu ári. Venjulega hefur verið meiri stígandi alveg í árslok og svo í byrjun nýs árs. Nú hefur þetta verið að rísa upp síðustu þrjár vikurnar,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is. 

„Það eru kenningar um það af því að það var engin inflúensa í hittiðfyrra og minni í fyrra að þá sé þýðið, þjóðfélagið sem heild, næmara. Það er að segja að það sé auðveldara fyrir veiruna að dreifa sér. En hvort fólk veikist meira sem smitast, hef ég ekkert endilega heyrt.“

Hún bætir við: „Það er mikið af veirum í gangi og öndunarfærasýkingar. Það er inflúensan og Covid-19 og aðrar kórónuveirur og svo RS-veiran sem hefur lagst sérstaklega á lítil börn og eldra fólk.“

Guðrún segir að RS-veiran geti verið mjög skæð, sérstaklega fyrir ungabörn.

„Hún er á mikilli uppleið, líka í Evrópu, mun meira en vant er. Það er engin bólusetning, meðferð eða lyf við því. Aðalmálið þar er að koma í veg fyrir smit eins og maður getur.“

Bólusetning og smitvarnir fyrir jólin

Guðrún segir að leggja mætti meiri áherslu á sóttvarnir.

„Lofta út, passa upp á nánd við aðra, og auðvitað að nota grímur þar sem það á við eins og á biðstofum, á læknastofum og inni á spítölum. Það er ein vörnin og svo er annað sem við höfum og það eru þessar bólusetningar,“ segir hún.

„Þeir sem eru ekki búnir að fá örvunarskammt og eru á þessum aldri eða áhættuhópum sem við mælum með að þiggi það, það er ekkert of seint.“

Guðrún segir bæði vera bólusett fyrir Covid-19 og fyrir inflúensunni og að hægt sé að láta bólusetja sig af því báðu á sama tíma. Hún segir það besta ráðið fyrir komandi tíð, sérstaklega fyrir þá sem eru í áhættuhópi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert