Egill Ólafsson, einn ástsælasti söngvari og leikari þjóðarinnar, gegnir einu af aðalhlutverkum í kvikmynd Baltasars Kormáks, Snertingu.
Myndin er eftir samnefndri bók, eftir Ólaf Jóhannsson, og standa tökur á henni enn yfir.
Baltasar Kormákur, leikari, leikstjóri og framleiðandi, segir frá því í samtali við Karítas Ríkharðsdóttur í Dagmálum, hvernig veikindi Egils hafa áhrif á tökur myndarinnar en einnig hvernig unnið er með þau.
„Mér fannst það ekki ástæða til að standa í vegi fyrir að hann gæti gert þetta þar sem hann er réttur aðili til að leika þetta hlutverk að mínum dómi,“ segir Baltasar Kormákur.
„Í staðinn fyrir að útskúfa út af veikindum ákváðum við að [inngilda]. Taka hann inn og nota í raun og veru hans greiningu í kartakterinn.“
Baltasar segir að veikindi Egils geri frammistöðu hans og leikinn í myndinni enn öflugri.
„Þetta snertir mann mjög djúpt. Þegar maður gerir sér grein fyrir því að þetta er ekki bara leiklist heldur er þetta líka sannleikurinn.“