Verkföll í Bretlandi hafa enn sem komið er ekki haft áhrif á flugferðir Icelandair og Play til London, að því er fram kemur í svörum flugfélaganna.
Starfsmenn lestarfyrirtækja í Bretlandi lögðu í dag niður störf og munu verkfallsaðgerðirnar halda áfram á morgun, föstudaginn og laugardaginn. Hefur þetta veruleg áhrif á lestarsamgöngur í landinu.
Þá hyggjast tollverðir sem annast landamæraeftirlit fara í verkfall yfir hátíðarnar eða frá 23. til 31. desember og hefur það áhrif á Heathrow og Gatwick flugvellina við London. Munu hermenn og opinberir starfsmenn m.a. aðstoða við landamæraeftirlitið meðan verkfallsaðgerðir standa yfir.
Í yfirlýsingu á vef bresku ríkisstjórnarinnar kemur fram að fyrirhuguð verkföll gætu lengt biðtíma ferðalanga við landamæraeftirlit í flugstöðvum og er fólk beðið um að sýna biðlund.
Í svari frá Icelandair kemur fram að félagið muni fylgjast vel með fyrirhuguðum verkfallsaðgerðum og að farþegar hafi fengið upplýsingar sendar um verkfallsaðgerðir sem gætu haft áhrif á almenningssamgöngur til og frá flugvöllum og þeim bent á að nýta sér aðra samgöngumáta.