Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og nefndarmaður í fjárlaganefnd, segir í samtali við mbl.is að framsetning og afgreiðsla beiðni miðilsins N4, um 100 milljóna króna styrk, í fjárlaganefnd hafi verið ónákvæm.
Meirihluti nefndarinnar, sem samanstendur af þingmönnum Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, samþykkti að veita 100 miljóna króna styrk úr ríkissjóð til landsbyggðarfjölmiðla.
Í breytingartillögum að fjárlögum sem snýr að fjölmiðlum sem lögð var fram á þingi 5. desember segir:
„Í frumvarpinu eru gjaldaheimildir 5,8 ma.kr. Gerð er ein breytingartillaga sem felur í sér aukinn stuðning við einkarekna fjölmiðla um 100 m.kr. Framlagið er vegna reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð.“
N4 sendi beiðni til fjárlaganefndar 1. desember og segist Björn hafa spurt meirihlutann í dag hvort styrkurinn væri einungis ætlaður N4.
„Þau útskýrðu fyrir mér að það væru fleiri [miðlar] sem styrkurinn myndi dreifast til,“ segir Björn og á þá við miðla á landsbyggðinni sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð.
Auk N4 framleiðir meðal annars Víkurfréttir á Suðurnesjum eigið efni. Fjárlaganefnd barst þó ekki beiðni frá neinum öðrum miðli en N4.
„En það þýðir ekki að ráðherra deili þessu einhvern veginn öðruvísi út,“ segir Björn og bendir á að í nefndarálitinu sé ekki minnst sérstaklega á N4 heldur einkarekinna fjölmiðla sem hafa ákveðin skilyrði.
„Ef það eru fleiri [miðlar] þá væntanlega hefur ráðherra heimild til þess að deila þessu einhvern veginn öðruvísi. En hvernig það endar er ráðherra að útskýra,“ segir hann og vísar þar til Lilju Daggar Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra.
„Ef það fara allar 100 milljónirnar til N4 þá þýddi það greinilega ekki neitt.“
Björn segir að málið sé frekar ónákvæmt, „og allir þessir bitlingastyrkir sem fara hingað og þangað eru á röngum stað, almennt séð í þessum fjárlögum. Það var búið að setja vinnureglu að allir svona styrkir sem kæmu yrðu beint á viðkomandi ráðherra sem myndi aðlaga fjárheimildir eða ekki. Og það var ákveðið að gera það ekki. Það eru ráðherrar þessarar ríkisstjórnar sem ákveða að bregðast ekki við þessum beiðnum, heldur meirihlutinn á þinginu.“
Spyr Björn því hvort meirihlutinn sé ekki sammála eigin ráðherrum.
„Ég veit ekki af hverju ráðherrarnir segja nei við þessu en fjárlaganefndin fær að segja já við þessu. Ég skil ekki samspilið þar á milli.“
Björn segir að nefndin hafi ekki rætt þá staðreynd að allir þingmenn í meirihluta nefndarinnar séu þingmenn landsbyggðarkjördæma, nema einn. Þar af eru fjórir úr Norðvestur- og Norðausturkjördæmi, þar sem N4 starfar.
Þá gagnrýnir hann hvernig breytingartillögurnar hafi verið kynntar fyrir nefndinni.
„Við fáum þetta bara daginn sem þetta er samþykkt út úr nefnd.“