Fjárlaganefnd beinir til ráðherra að endurskoða þær reglur sem gilda um rekstrarstuðning við einkarekna fjölmiðla á landsbyggðinni „þannig að aukið tillit verði tekið til þeirra sem framleiða efni fyrir sjónvarp“. Er þetta gert „í ljósi umræðu í fjölmiðlum“ um málið.
Þetta kemur fram í áliti meirihluta fjárlaganefndar sem birt var á vef Alþingis í kvöld.
Þar segir að nefndin hafi fjallað um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023 að nýju eftir 2. umræðu á þinginu.
„Við 2. umræðu um frumvarpið var samþykkt tillaga um tímabundið framlag til reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð. Í ljósi umræðu í fjölmiðlum beinir meiri hlutinn því til ráðherra að endurskoða þær reglur sem gilda um rekstrarstuðning við einkarekna fjölmiðla á landsbyggðinni þannig að aukið tillit verði tekið til þeirra sem framleiða efni fyrir sjónvarp,“ segir í álitinu.
Meirihlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sama hafa verið gerðar.
Heimildir Kjarnans herma að fjárframlagið muni renna inn í styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla og hækka upphæð úthlutunar á næsta ári úr 377 milljónum króna í 477 milljónir. Það muni koma í hlut Lilju Daggar Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, að útfæra hvernig aukið tillit til fjölmiðla á landsbyggðinni sem framleiða efni fyrir sjónvarp.
Hvorki Lilja Dögg né neinir af nefndarmönnunum hafa svarað símtölum mbl.is í kvöld.